Bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal segir í dag, að lyfjafyrirtækið Actavis kunni að vera til sölu. Er hugsanlegt verðgildi félagsins sagt vera 6 milljarðar evra, jafnvirði 905 milljarða króna.
Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á 80% hlut í Actavis. Fram hefur komið í Morgunblaðinu, að Actavis réði fyrir nokkrum máanuðum bandaríska fjárfestingarbankann Merrill Lynch til að veita ráðgjöf um hvert fyrirtækið skuli stefna og komu þá fjórar mögulegar leiðir til greina. Fyrsta hugsanlega leiðin var að Actavis sameinist öðru stóru fyrirtæki, önnur leiðin að félagið taki yfir annað stórt fyrirtæki og þriðja leiðin að Actavis verði selt. Fjórða leiðin er að Actavis verði skráð að nýju á markað.
Blaðið hefur eftir heimildarmanni, sem sagður er þekkja vel til, að Actavis einbeiti sér nú að sölu og að vandamál Landsbankans á Íslandi hafi hraðað þeirri þróun.
Haft er eftir Ásgeiri Friðgeirssyni, talsmanni Björgólfs, að hluthafar Actavis séu ekki að reyna að selja fyrirtækið með hraði vegna fjármálakreppunnar á Íslandi. Hugsanleg sala muni ekki verða þessu ári.
Actavis sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem segir, að fjármálakreppan á Íslandi hafi engin áhrif á starfsemi félagsins. Aðeins 1% af tekjum Actavis myndist á Íslandi og starfsemin sé ekki háð íslensku bönkunum. Þá sé bókhald félagsins fært í evrum.