FME tók strax dræmt í hugmyndir lífeyrissjóða

Höfuðstöðvar Kaupþings við Borgartún.
Höfuðstöðvar Kaupþings við Borgartún. mbl.is/Golli

Fimm lífeyrissjóðir, sem óskuðu eftir viðræðum um kaup á eignum og rekstri Kaupþings, segja að ráða hafi mátt af viðbrögðum Fjármálaeftirlitsins á fundi á miðvikudag að vonlítið var að erindi sjóðanna yrði tekið með jákvæðum hætti. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sjóðunum, sem mbl.is hefur borist, en þar er einnig tekið fram að hvorki fyrrum formaður né forstjóri Kaupþings hafi átt aðild að kauptilrauninni.

Þá kemur einnig fram í yfirlýsingunni, að lífeyrissjóðirnir  gerðu ekki tilboð í Kaupþing. Sú niðurstaða, sem Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafi greint fréttamönnum frá eftir ríkisstjórnarfund í gær um að tilboði lífeyrissjóðanna hefði verið hafnað, hafi ekki verið byggð á upplýsingum um heildstætt áhættumat lífeyrissjóðanna þar sem þær upplýsingar bárust ekki til Fjármálaeftirlitsins fyrr en eftir að ráðherrann lýsti  því yfir að tilboðinu hafi verið hafnað.

Yfirlýsingin frá lífeyrissjóðunum er eftirfarandi:  

Með tilliti til misvísandi frásagna í fjölmiðlum um tilraun lífeyrissjóða til kaupa á eignum og rekstri Kaupþings vilja sjóðirnir skýra atburðarás síðustu daga: 

1. Á laugardeginum 11. október áttu fulltrúar lífeyrissjóðanna fund með forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME) þar sem honum var greint frá fyrirætlun lífeyrissjóðanna um hugsanleg kaup á rekstri Kaupþings. 

2. Á sunnudeginum 12. október áttum við fund með forsætisráðherra, viðskiptaráðherra, iðnaðarráðherra og menntamálaráðherra þar sem aðeins eitt mál var til umræðu þ.e. aðkoma lífeyrissjóðanna að Kaupþingi. Viðbrögð ráðherranna voru afar jákvæð svo ekki sé kveðið fastar að orði.

3. Á hádegi þriðjudaginn 14. okt. var FME sent bréflega erindi fimm lífeyrissjóða þar sem óskað var viðræðna um kaup á rekstri Kaupþings enda gáfu fyrri fundir til undirbúnings erindi sjóðanna ástæðu til bjartsýni um að málaleitan lífeyrissjóðanna yrði vel tekið. 

4. Miðvikudaginn 15. okt. áttu fulltrúar fjárfestahópsins fund með stjórn og forstjóra eftirlitsins þar sem gerð var grein fyrir ástæðu þess að óskað var eftir viðræðum og jafnframt gerðum við stuttlega grein fyrir  viðskiptaáætlun fjárfestahópsins. Skýrt kom fram í fundarlok að ekki bæri að líta á fundinn sem svar við erindi sjóðanna um viðræður. Af viðbrögðum FME mátti þó ráða að vonlítið var að erindi sjóðanna yrði tekið með jákvæðum hætti.   

5. Síðdegis fimmtudaginn 16. okt. barst sjóðunum bréf FME þar sem þakkað er fyrir erindi þeirra og þeim greint frá því að FME væri að meta heildstætt beiðni sjóðanna og þau gögn sem lögð voru fram á fundi aðila deginum áður. FME óskaði eftir að heildstætt áhættumat yrði lagt fram fyrir alla þá fimm lífeyrissjóði sem stóðu að erindinu auk þess sem skoða þyrfti eignarhald lífeyrissjóðanna með tilliti til tiltekinna hlutfalla í lífeyrissjóðalögunum. Sjóðunum var gefinn frestur til 12 á hádegi næsta dags, þ.e. föstudags, til að bregðast við erindi FME. 

6. Forstjóri FME kvittaði fyrir móttöku svars lífeyrissjóðanna kl 11:50 á föstudeginum. 

7. Skömmu áður en forstjóri móttók svar lífeyrissjóðanna með upplýsingum um heildstætt áhættumat og öðrum upplýsingum svaraði viðskiptaráðherra spurningum fréttamanna um málið með þeim hætti  „að tilboði lífeyrissjóðanna hefði verið hafnað."

Eins og atvikaröðin ber með sér gerðu lífeyrissjóðirnir ekki tilboð í Kaupþing. Niðurstaðan sem ráðherrann greindi frá var ekki byggð á upplýsingum um heildstætt áhættumat lífeyrissjóðanna þar sem þær upplýsingar bárust ekki til FME fyrr en eftir að ráðherrann lýsir því að tilboðinu hafi verið hafnað. Fundur með öllum lífeyrissjóðum landsins hafði verið boðaður til að bjóða þeim aðkomu að fjárfestingunni í Kaupþingi með fyrirvara um að samkomulag tækist um kaupin. Af fundinum varð ekki þar sem aðkomu lífeyrissjóðanna að Kaupþingi var hafnað af viðskiptaráðherra stuttu fyrir fundinn. Að endingu viljum við taka fram að fyrrum formaður og forstjóri Kaupþings áttu ekki aðild að kauptilraun sjóðanna.   

f.h. lífeyrissjóðanna

Þorgeir Eyjólfsson
forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK