Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdasjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sætir nú rannsókn vegna ástarsambands, sem hann er talinn hafa átt við konu sem starfar hjá stofnuninni. Verið er að rannsaka hvort Strauss-Kahn, sem er 59 ára Frakki, hafi misbeitt valdi sínu.
Blaðið Wall Street Journal segir, að IMF hafi ráðið lögmannsstofuna Morgan, Lewis & Bockius LLP til að rannsaka málið og er niðurstöðu að vænta í lok október.
Blaðið segir að rannsóknin beinist að sambandi Strauss-Kahns við Piroska Nagy, fyrrum yfirmanns Afríkudeildar IMF. Nagy, sem á ættir að rekja til Ungverjalands, hætti störfum hjá IMF í ágúst þegar starfsfólki var fækkað, og starfar nú hjá Evrópubankanum. Rannsóknin beinist m.a. að því hvort Nagy hafi fengið óeðlilega hagstæðan starfslokasamning.
Þau Nagy og Strauss-Kahn eru sögð hafa skipst á tölvupóstum um samband sitt, sem virðist hafa hafist í byrjun þessa árs á ráðstefnu í Evrópu. Eiginmaður Nagi, argentínski hagfræðingurinn Mario Blejer, sem einnig hefur starfað hjá IMF, sá tölvupóstana og þannig komst málið upp.
Wall Street Journal vísar til yfirlýsingar frá Strauss-Kahn þar sem hann segist hafa veitt aðstoð við rannsóknina og muni halda því áfram. Segir hann að umrætt atvik tengist einkalífi hans. „Ég misbeitti aldrei stöðu minni sem framkvæmdastóri sjóðsins," segir hann.
Paul Wolfowitz, fyrrum forstjóri Alþjóðabankans, systurstofnunar IMF, neyddist til að segja af sér í fyrra vegna þess að hann beitti sér fyrir því að unnusta hans, sem vann hjá bankanum, fengi starfsframa og launahækkun.