Róbert Wessman, fyrrverandi forstjóri Actavis og eigandi fjárfestingafélagsins Salt Investment, íhugar að höfða mál til að rifta kaupum hans á hlutum í Glitni fyrir um sex milljarða, skömmu áður en hann var þjóðnýttur. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Róbert keypti hluti í Glitni fyrir sex milljarða króna fimm dögum áður en forsvarsmenn Glitnis leituðu til Seðlabankana Íslands vegna lausafjárvanda. Það leiddi til þess að bankinn var að lokum þjóðnýttur og töpuðu hluthafar í bankanum öllum hlutum sínum. Glitnir seldi Róberti hlutinn í bankanum.
Róbert vildi ekki tjá sig um þetta mál þegar mbl.is náði tali af honum. Í heild átti félag Róberts hluti fyrir um tólf milljarða í bankanum þegar hann var tekin yfir af skilanefnd Fjármálaeftirlitsins.