Fjármálaeftirlitið hefur gert skilanefndum bankanna að rannsaka viðskipti stjórnenda og stærstu eigenda bankanna og stærstu viðskiptavina þeirra frá 1. september. Fram kom í fréttum Útvarpsins, að skilanefndirnar eiga að fá utanaðkomandi endurskoðendur til aðstoðar við rannsóknina.
Útvarpið sagði, að Fjármálaeftirlitið hafi gefið skilanefndunum 3 vikur til að skila skýrslu um viðskiptin. Kanna á hvort í aðdraganda bankaþrotanna hafi átt sér stað óeðlileg viðskipti á kostnað hluthafa bankanna.
Rannsóknin er sögð vera sett af stað til að taka af allan vafa um hvort lykilmenn bankanna hafi nýtt sér innherjaupplýsingar til að verja sig gegn erfiðleikunum sem síðan riðu yfir á kostnað annarra hluthafa.