Útreið Íslands engin tilviljum

Gylfa Zoëga, prófessor við Háskóla Íslands
Gylfa Zoëga, prófessor við Háskóla Íslands mbl.is/ÞÖK

Fundur Landsbankans í júlí í sumar þar sem kynnt var skýrsla bresku hagfræðinganna Willems H. Buiters og Anne Sibert um íslenska bankakerfið var enginn venjulegur morgunverðarfundur á vegum bankans, að sögn Gylfa Zoëga, prófessors við Háskóla Íslands, en hann var einn fundarmanna.

Haft var eftir Sigmundi Sigurgeirssyni, ráðgjafa Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, í Morgunblaðinu á fimmtudag, að hann hefði litið á fundarboðið sem sambærilegt við mörg önnur morgunverðarfundarboð bankans.

Á fundinum var hópur manna, m.a. fulltrúar Seðlabankans og viðskiptaráðuneytisins. Gylfi segir að niðurstaða fundarins hafi verið sú að ógnvænlegar blikur væru á lofti.

„Það er miður að stjórnvöld hafi, að því er virðist, ekki hlustað á þessa og aðra sem vöruðu við því sem gerast kynni. Það var ekki tilviljun að okkar fjármálakerfi fór sérstaklega illa út úr þeirri heimskreppu sem nú geisar,“ segir Gylfi.

Í fyrirlestri Buiters og Sibert í sumar hafi komið fram að þótt hér væri að flestu leyti fyrirmyndarþjóðfélag þá væri stærð bankakerfisins mikið vandamál vegna þess að íslensku bankarnir væru „berskjaldaðir fyrir bankaáhlaupi, þ.e.a.s. því að lokað væri fyrir lánalínur frá erlendum viðskiptabönkum“, segir Gylfi.

Ísland hefði þá kosti að ganga í Evrópusambandið svo bankarnir gætu starfað í skjóli Evrópska seðlabankans, eða flytja úr landi.

Fram hafi komið að til skamms tíma þyrfti ríkið hins vegar að leita leiða til þess að afla gjaldeyris til að verja bankana ef lánalínur lokuðust.

„Þau nefndu í því sambandi að ríkið gæti veðsett orkulindir landsins og þjóðnýtt bankana; að það gæti notað eignir lífeyrissjóðanna og þjóðnýtt þá; að það gæti hugsanlega fengið gjaldeyrisskiptasamning við seðlabanka Bandaríkjanna; eða að það gæti leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,“ segir Gylfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK