Seðlabanki Íslands hefur haft samband við fjölda erlenda seðlabanka og beðið þá um liðsinni með því að beina þeim tilmælum til eigin banka að nota innviði Seðlabanka Íslands til að koma greiðslum til landsins ef bankar þeirra óttast að skapa sér skaðabótaábyrgð skili greiðslur sér ekki til rétts aðila. Vonast er til að það fari að bera árangur í byrjun þessarar viku. Þetta kemur fram á vef Seðlabankans varðandi greiðslumiðlun í landinu og milli landa.
Bresk stjórnvöld beðin um að skýra betur út aðgerðir sínar
„Seðlabankinn gerir allt sem í hans valdi stendur til að leysa úr þeim vanda sem við er að etja. Bankinn hefur sett upp og virkjað hjáleiðir í erlendri greiðslumiðlun en þær ganga því miður stundum hægt.
Bankinn hefur haft samband við fjölda erlenda seðlabanka og beðið þá um að liðsinna okkur með því að beina þeim tilmælum til eigin banka að nota innviði Seðlabanka Íslands til að koma greiðslum til landsins ef bankar þeirra óttast að skapa sér skaðabótaábyrgð skili greiðslur sér ekki til rétts aðila. Vonast er til að það fari að bera árangur í byrjun þessarar viku.
Þeim tilmælum hefur verið beint til breskra stjórnvalda að þau skýri betur út umfang og aðgerðir sínar. Fjármálaráðuneyti Bretlands gaf út nánari útskýringar og birti á vef sínum s.l. föstudag og ætti það að leysa úr hluta af þeim vanda sem við er að etja," að því er fram kemur á vef Seðlabanka Íslands.
Kjarni vandans aðgerðir og inngrip erlendra fjármálafyrirtækja
Engu að síður verða allir aðilar að gera sér grein fyrir að það tekur tíma að greiða úr þeim mikla vanda sem skapast hefur, enda erum við háð aðgerðum og inngripum fjölda erlendra aðila. Allir sem hagsmuna hafa að gæta og verða fyrir áhrifum eru hvattir til þess að reyna eftir fremsta megni að skýra út fyrir samstarfsaðilum sínum um hvað málið snýst.
Þetta er ekki skortur á vilja eða getu innlendu aðilanna til að standa í skilum við erlenda viðskiptavini sína. Kjarni vandans eru aðgerðir og inngrip erlendra fjármálafyrirtækja sem m.a. má rekja til aðgerða breskra stjórnvalda og annarra aðila, að því er fram kemur á vef Seðlabankans.