Tryggingarsjóður innstæðueigenda í Bretlandi hefur greitt út þrjá milljarða punda, 586 milljarða króna, til þess að flytja innistæður af reikningum Kaupþings og Landsbankans í Bretlandi inn á reikninga hjá hollenska bankanum ING. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg fréttastofunnar.
Greint var frá því fyrr í mánuðinum að ING Direct UK, dótturfélag ING Groep NV, stærsta fjármálaþjónustufyrirtækis Hollands, hefði keypt innlán breskra viðskiptamanna Kaupþings og Landsbankans.
Í gær var tilkynnt á blaðamannafundi að hollensk stjórnvöld hefðu ákveðið að leggja ING Groep til 10 milljarða evra, jafnvirði rúmlega 1500 milljarða króna.