Óska eftir 6 milljörðum dala

Íslensk stjórnvöld ætla að óska eftir því að fá sex milljarða dala, 673 milljarða króna, lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (IMF) og seðlabönkum annarra ríkja samkvæmt frétt á vef breska viðskiptablaðsins Financial Times.  Er þetta hluti af björgunaraðgerðum stjórnvalda en auk þess verður leitað eftir aðstoð  til þess að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi eftir að bankakerfi landsins hrundi fyrr í mánuðinum, samkvæmt frétt FT.

FT hefur eftir heimildarmönnum, sem þekkja til samningaviðræðna íslenskra stjórnvalda og IMF, að búist sé við því að um einn milljarður dala komi frá IMF en norrænir seðlabankar og Seðlabanki Japans muni lána um fimm milljarða dala. Óljóst er hvort rússneski seðlabankinn muni taka þátt í björgunaraðgerðunum, samkvæmt FT.

Engin formleg beiðni hefur borist frá íslenskum stjórnvöldum til IMF en búist er við að formlegt erindi verði sent annað hvort síðar í dag eða á morgun.

Er björgunarpakki IMF talinn munu marka mikil tímamót fyrir Ísland sem hefur árangurslaust reynt að fá aðstoð frá öðrum ríkjum. Þau hafa krafist þess að Ísland geti sýnt fram á að formlegt samkomulag hafi náðst við IMF. Hafi norrænu seðlabankarnir og sá japanski sett það sem skilyrði að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn myndi veita Íslandi aðstoð, samkvæmt heimildum FT.

Blaðið segir, að viðræður íslenskra stjórnvalda og IMF hafi gengið vel og að þær hafi einkum beinst að þremur greinum, bankageiranum, ríkisfjármálum og peningamálastefnu Seðlabanka Íslands og stýrivöxtum hans.

Hvað bankageirann varðar þá leggur Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn áherslu á að  hann verði endurskipulagður og lög um fjármálafyrirtæki verði endurskoðuð til þess að tryggja það að þau séu í samræmi við alþjóðlega bankastarfsemi. Einnig fari fram ýtarleg rannsókn á orsökum bankahrunsins. 

Tekið er fram, að IMF hafi ekki krafist þess að Íbúðalánasjóður verði einkavæddur. Jafnframt er ekki farið fram á nein tímamörk hvað varðar sölu íslenska ríkisins á hlut sínum í viðskiptabönkunum þremur: Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum, sem allir hafa verið ríkisvæddir að nýju.

Er talið að þetta benda til þess að IMF ætli sér ekki að leggja nein íþyngjandi skilyrði á Ísland sem hluta af björgunarpakkanum, samkvæmt heimildum FT úr röðum þeirra sem koma að samningsgerðinni. „Ekki eru gerðar neinar grundvallarbreytingar á innviðum þjóðfélagsins,” segir heimildarmaður FT. „Þeir segjast hafa lært af Suður-Kóreu og þeir vilja ekki auka líkur á snöggri niðursveiflu.”

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var gagnrýndur harðlega fyrir þær þvinganir sem sjóðurinn lagði á Suður-Kóreu eftir að landið fékk aðstoð frá sjóðnum á tímum Asíukreppunnar 1997-1998. Hafa gagnrýnendur haldið því fram að staða efnahagsmála til skamms tíma hafi versnað í S-Kóreu eftir aðgerðir sjóðsins.

Nóbelsverðlaunahafinn og hagfræðingurinn Joseph Stiglitz var að margra dómi hrakinn úr starfi hjá Alþjóðabankanum árið 2000 en hann gagnrýndi harkalega þessar tvær stofnanir fyrir einstrengingshátt, ekki síst í Asíukreppunni 1997-1998. Ráðamenn IMF virtust halda að hægt væri að nota sömu ráðin alls staðar, sagði hann. Þeir væru hrokafullir „bókstafstrúarmenn“ og blindaðir af andlegri leti og oftrú á lög mál markaðarins, „hina huldu hönd Adams Smiths“. Og þeir hlustuðu ekki á skoðanir talsmanna þróunarríkjanna. Stiglitz vildi að IMF hætti að veita ráð um þróun og langtímaefnahagsstefnu en einbeitti sér að aðstoð við ríki í kreppu, að því er fram kom í fréttaskýringu Kristjáns Jónssonar í Morgunblaðinu í gær.

Hvað varðar fjármál íslenska ríkisins þá mun Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn óska eftir því við stjórnvöld leggi fram trúverðuga áætlun um samdrátt ríkisútgjalda í ljósi þess, að skuldir ríkissjóðs muni aukast verulega og nema allt að 100% af vergri landsframleiðslu.

Hvað varðar peningamálastefnu og vaxtastefnu verður íslenska krónan sett á flot á ný eins fljótt og auðið er. Er sú skoðun sögð vera innan IMF, að eftir að mesti taugatitringurinn er að baki muni krónan styrkjast þar sem hratt muni draga úr viðskiptahalla. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK