Það blæs ekki byrlega fyrir ólígarkana, ofurauðmenn Rússlands, í hrunadansi fjármálamarkaða heims þessa stundina. Vladimir Pútín fyrrum forseti Rússlands, hét því árið 2000 þegar hann komst til valda að uppræta ólígarkana „sem stétt“. Innan tveggja ára hafði hann hrakið tvo af þeim helstu í útlegð og fangelsað þann þriðja. Nú lítur út fyrir að hann geti nýtt sér fjármálahrunið til að ganga endanlega milli bolls og höfðs á ólígörkunum.
Dmitry Medvedev forseti og Pútín sem nú er orðin forsætisráðherra, hafa heitið að leggja til fjármuni að andvirði um 50 milljörðum dala til að aðstoðar fyrirtækjum í fjárþröng sem í reynd þýðir ríkisvæðingu margra helstu fyrirtækja í eigu auðkýfinga Rússlands. Þeir sem sækjast eftir aðstoð ríksins, svo sem Oleg Derpaska hjá Basic Element samsteypunnar, auðugasti maður Rússlands, og Mikhail Fridman, yfirmaður Alfa-Bank, munu þurfa að sæta því að yfirvöld fái fyrir vikið neitunarvald í fjármálalegum ákvörðunum innan fyrirtækjanna.
Ríkisvaldið fær fyrir bragðið stóraukin ítök í helstu fyrirtækjum landsins og atvinnugreinum. Chris Weafer, sérfræðingur UralSib Finacial Corp. í Moskvu segir að áður en þetta ár sé úti sé aðeins einn olígarki eftir sem máli skipti - sjálft ríkið.
Mikil umskipti
Þetta eru mikil umskipti frá því sem var fyrir áratugi þegar ólígarkarnir meira og minna fjármögnuðu hálflamaða ríkisstjórn Boris Jeltsin. Ekki er lengra síðan en í apríl sl. að 100 auðugustu borgarar Rússlands réðu yfir auðæfum sem jafngiltu um þriðjungi hagkerfisins, að mati Fortune- viðskiptatímaritsins.
Nú hafa 25 ríkustu auðmenn landsins mátt horfa upp á eignir sínar skerðast um 230 milljarða dala eða um 62% samkvæmt útreikningum Bloomberg. Pútín sjálfur heldur um taumana í stærstu fjársjóðskistunni sem eftir er - ríkiskassanum að jafnvirði 531 milljarða dala sem hann skammtar út úr ríkisreknum Vnesheeconomombankanum (VEB) - þar sem hann situr í forsæti stjórnarinnar.
Óligarkarnir komust yfir auðævi sín á tíunda áratugnum þegar yfirvöld færðu fyrirtæki og atvinnugreinar úr höndum ríkisvaldsins yfir til einkageirans á sama tíma og ríkisvaldið var með veikasta móti. Ólígarkarnir lánuðu stjórnvöldum fé til að styðja við Jeltsin gegn hlutum í völdum ríkiseignum, þar á meðal OAO Norlisk Nickel, stærsta námufyrirtæki Rússlands.
Stuðningurinn dugði þó ekki til að ríkisstjórnin gæti staðið í skilum á skuldum sínum innanlands eða hindra fall rúblunnar. Pútín komst til valda tveimur árum síðar með aðstoð Boris Berezovskí, viðskiptajöfurs og stjórnmálamanns í innstra hring Jeltsins sem er sagður hafa átt mestan þátt í að koma hugtakinu ólígarkar á flot, þ.e. stjórnskipan sem byggist á einhvers konar þröngri yfirstétt, elítu, hvort heldur hún á rætur í aðli, auði, fjölskylduvenslum, hernaði eða trúarbrögðum. Áhrif Berezovskí voru skráð í bókinni Guðfaðir Kremlar eftir Paul Klebnikov, Rússlandsritstjóra Forbes, sem myrtur var 2004.
Fáeinum mánuðum eftir að Pútín komst til valda gerði hann Mikhail Khodorkovskí, ríkasta manni Rússlands á þeim tíma, og um tylft annarra athafnamanna grein fyrir því að auðlegð þeirra væri örugg svo lengi sem þeir héldu sér frá stjórnmálum og freistuðu þess ekki að hafa áhrif á innlandsmál.
Berezovskí sem er nú 62 ára að aldri, varð eitt af fyrstu fórnarlömbum herferðar Pútíns gegn ólígörkunum. Hann mátti flýja til Lundúna árið 2001 til að komast hjá ákærum um fjársvik heima fyrir og hann heldur fram að hafi verið af pólitískum toga.
Þekktasta málið af þessu tagi snýr hins vegar að Khodokovskí. Hann var handtekinn og dæmdur fyrir skattalagabrot og fjársvik. OAO Rosneft, ríkisrekið olíufélag, tók yfir mestan hluta fyrirtækis hans OAO Yukos Oil, sem eitt sinn var stærsti hráolíuútflytjandi landsins Stjórnvöld ráða nú yfir 44% allra olíuframleiðslu og gasútflutningi landsins. Khodorkovskí hefur alla tíð haldið því fram að málatilbúnaðurinn gegn sér stafi af andstöðuinni við Pútín sem aftur hefur jafnan vísað öllu slíku á bug.