Stjórnvöld skildu ekki eðli uppsveiflunnar

Robert Z. Aliber.
Robert Z. Aliber. mbl.is/G. Rúnar

Robert Z. Aliber, professor emeritus við háskólann í Chicago, segir í grein í Morgunblaðinu í dag, að ríkisstjórn Íslands og seðlabanki séu engu hæfari sem stjórnendur nútíma hagkerfis en þau væru sem stjarnvísindamenn.

„Þau skildu ekki að uppsveifla íslenska hagkerfisins árin 2005 og 2006 byggðist á skuldasöfnun – lán voru tekin til þess að standa í skilum með önnur lán – og nú vita þau ekki hvernig unnt sé að ná jafnvægi aftur eftir að pappírsauðurinn er horfinn. Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld," segir Aliber.

Hann segir einnig, að ríkisstjórnin og seðlabankinn virðist ekki skilja af hverju Bandaríkin og önnur lönd hiki við að lána þeim peninga. Svarið sé einfalt þótt það hljómi ekki vel. Það beri enginn traust til núverandi ríkisstjórnar og seðlabanka; það treysti þeim enginn til þess að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar séu til þess að unnt verði að endurgreiða slík lán.

Aliber segir að Seðlabanki Íslands ætti við þær aðstæður sem nú eru komnar upp að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til þess að markaður með gjaldeyri verði virkur á nýjan leik. Íslendingar verði, eins og aðrar þjóðir, að læra að lifa ekki um efni fram.

Þá segir hann að dómstólar verði að skera úr um hvort ríkisstjórn Íslands sé ábyrg fyrir skuldum íslensku bankanna í breskum pundum vegna innlánsreikninga þeirra og dótturfélaga þeirra á Bretlandi.

Aliber hélt í maí sl. fyrirlestur í Háskóla Íslands, sem vakti talsverða athygli. Þar hélt hann því fram, að litlar líkur væru á því að íslensku bankarnir kæmust hjá því að verða fyrir áhlaupi. Jafnvel mætti ætla að hljóðlátt bankaáhlaup væri þegar hafið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK