Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) hefur sent starfsmönnum sjóðsins tölvupóst þar sem hann biðst afsökunar á því að hafa átt í ástarsambandi við starfskonu sjóðsins fyrr á þessu ári.
Í tölvupóstinum, sem AFP hefur séð, biður Strauss-Kahn einnig eiginkonu sína og konuna, sem hann átti í sambandi við, afsökunar. Segist hann vilja endurtaka það sem hann sagði stjórn IMF á fundi í Washington í dag.
„Fyrst baðst ég afsökunar og sagðist harma þetta verulega. Í öðru lagi, þótt þetta atvik lýsi dómgreindarskorti af minni hálfu sem ég axla fulla ábyrgð á, er ég sannfærður um að ég hef ekki misbeitt því valdi, sem staða mín felur í sér."
Stjórn IMF hefur fengið bandaríska lögmannsstofu til að rannsaka undir hvaða kringum stæðum hagfræðingurinn Piroska Nagy hætti störfum hjá IMF í sumar. Nagy átti í ástarsambandi við Strauss-Kahn en ber á móti því, að hún hafi fengið rausnarlegri starfslokasamning hjá IMF en aðrir í svipuðum störfum og hún gegndi.
Í tölvupóstinum segir Strauss-Kahn, að hann skilji vel að margir starfsmenn sjóðsins telji framkvæmdastjórann hafa brugðist þeim. Hann biður starfsfólkið jafnframt að einbeita sér að því verkefni sem framundan er en IMF mun að öllum líkindum leika stórt hlutverk í baráttunni gegn fjármálakreppunni í heiminum.
Íslensk stjórnvöld hafa átt í viðræðum við IMF um hugsanlega aðstoð sjóðsins. Formleg beiðni um slíkt hefur hins vegar ekki verið send.