Þýski bankinn BayernLB varð í kvöld fyrsti þýski bankinn til að leita ásjár stjórnvalda í samræmi við víðtæka björgunaráætlun, sem samin hefur verið. Gera stjórnendur bankans ráð fyrir að óska eftir 5,4 milljörðum evra, jafnvirði 815 milljarða króna en BayernLB hefur m.a. tapað verulegum fjárhæðum á viðskiptum við íslenska banka.
Michael Kemmer, forstjóri BayernLB, sagði í kvöld að fall íslensku bankanna hefði aukið tap bankans um nærri 1,5 milljarða evra, jafnvirði 226 milljarða króna.
Erwin Huber, fjármálaráðherra Bæjaralands og stjórnarformaður BayernLB, sagði að eigendur bankans, Bæjaraland og bankar í ríkinu, myndu leggja BayernLB til 1 milljarð evra að auki.