Íslands-heilkennið

Ímyndið ykkur eftirfarandi: Í meðalstóru Evrópulandi, köllum það Land X, heldur stjórn fjármálaeftirlitsins reglulegan fund. Þar sem nú eru óvenjulegir tímar er rætt um fjármálalega heilsu hinna ýmsu banka, þar á meðal stærsta bankans - sem má nefna Banka Y, og er í eigu stórrar ítalskrar fjármálasamsteypu. Í vor flutti Banki Y, sem er í góðu standi, stóra fjárhæð til móðurfélagsins, sem ekki er í jafngóðu standi; en þar sem þetta er ekkert óvenjulegt, er málið lagt til hliðar og fundurinn heldur áfram. 

Daginn eftir er fjallað um málið í dagblaði yst á hægri væng stjórnmálanna undir nokkuð öðrum formerkjum: „Milljarður dala fluttur til Ítalíu. Peningar Lands X fluttir til útlanda! Nokkrum klukkustundum síðar, eins og gefið hafi verið merki, byrja allir að selja hlutabréf í Banka Y og gengi bréfanna hrynur. Það sama gera önnur hlutabréf í kauphöll landsins. Innan nokkurra klukkustunda óskar Land X eftir alþjóðlegri aðstoð, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er í símanum og ríkisstjórnin er að falla.

Svona hefst grein Anne Applebaum, dálkahöfundar Washington Post, í dag undir fyrirsögninni. Íslands-heilkennið. Applebaum segir að þessi lýsing, ef undan er skilin síðasta málsgreinin, því ekki hafi komið til alþjóðlegrar aðstoðar og ríkisstjórnin standi vel, sé á atburðum sem urðu í síðustu viku í Póllandi. 

Mál af svipuðu tagi hafi hins vegar haft víðtækari afleiðingar í nokkrum öðrum löndum. Appelbaum segir að sagan af Íslandi sé vel kunn en Íslands-veikin hafi breiðst út, m.a. til Ungverjalands og Úkraínu. 

Skýringar hafi fengist á flestum þessum krísum. Íslensku bankarnir hafi skuldað allt of mikið, fjármálum Ungverjalands hafi verið illa stjórnað og Úkraínu sé illa stjórnað. Hins vegar valdi hinn mikli hraði á fjármálahruninu því, að ýmsa gruni að pólitískar ástæður liggi einnig að baki.

„Með öðrum orðum: Ef maður vill koma á óstöðugleika í einhverju landi, væri þetta þá ekki rétti tíminn? Ef hlutabréfamarkaður Lands X getur hrunið eftir að ein frétt birtist í lítilfjörlegu dagblaði, þá er hægt að ímynda sér hvað gerðist ef herferð yrði skipulögð gegn Landi X.

Allar ríkisstjórnir eiga sér óvini, innan lands sem utan, eða þurfa að minnsta kosti að kljást við öfl sem ekki eru þeim velviljuð: stjórnarandstöðuna, nágrannaríkið, fyrrum heimsveldið. Það er alltaf fyrir hendi sú freisting, að koma ríkisstjórninni frá, koma á ójafnvægi í landinu og skapa pólitíska ringulreið.

Og jafnvel þótt ekki hafi verið um að ræða pólitíska íhlutun mun einhvern hvort eð er alltaf gruna að sú hafi verið raunin. Hér er því mín spá: Pólitískur óstöðugleiki mun fylgja á eftir efnahagslegum óstöðugleika eins og nótt fylgir  degi. Ísland er ekki eina landið. Serbía, Eystrasaltslöndin, Kasakstan, Indónesía, Suður-Kórea og Argentína eiga öll í fjárhagsvandræðum. Það sama á við um Rússland og Brasilíu," segir Appelbaum.

Hún bendir einnig á að í Pakistan sé 25% verðbólga, gengi gjaldmiðilsins sé í frjálsu falli, uppreisnaröfl fari mikinn á landamærum Pakistans og Afganistans, stöðugur ófriður sé á landamærunum við Indland, þar séu kjarnavopn og hefð fyrir götuuppreisnum eftir að grunsamlegar blaðagreinar hafa birst.

„Tugir manna, með allskonar markmið, geta grætt á að nota fjármálamarkaði til að grafa undan Pakistan og Afganistan einnig. Á endanum mun einhver láta til skarar skríða."

Grein Anne Appelbaum

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK