Fjárfestingafélag í eigu milljarðamæringsins Kirk Kerkorian, hefur selt 7,3 milljónir hluta í bandaríska bílaframleiðandanum Ford Motor. Hver hlutur var seldur á 2,43 dali sem er 10% yfir lokagildi Ford í Kauphöllinni í New York í gærkvöldi. Heildarsöluvirðið er því 17,739 milljónir dala, rúmir tveir milljarðar króna. Eftir söluna á félag Kerkorian, Tracinda, nú rúmlega 6% hlut í Ford.
Stefnir félagið að selja enn frekar af hlut sínum í Ford á næstunni og jafnvel verði öll hlutabréf Tracinda í Ford seld, alls 133,5 milljónir bréfa.
Telur Kerkorian, sem árum saman hefur reynt að hafa áhrif á gang mála hjá Ford, fjármunum sínum betur borgið í fjárfestingum eins og spilavítum, hótelum, olíu og gasi.
Ljóst er að milljarðamæringurinn tapaði umtalsverðu fé á viðskiptunum en hann keypti 20 milljónir hluta í Ford í júní á markaðsvirði Ford á þeim tíma. Við það fór hlutur hans í 6,49%. Viku áður hafði hann keypt 20 milljónir hluta á um 170 milljónir dala eða á 8,50 dali á hlut.