Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segir við Bloomberg fréttastofuna, að íslensk stjórnvöld séu „mjög nálægt“ því að ganga frá láni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum [IMF]. Það samkomulag kunni einnig að fela í sér lán frá Norðurlöndunum og Japan.
Össur vildi ekki tjá sig um frétt Financial Times í gær um að Ísland fái 1 milljarð dala frá IMF og fimm milljarða frá Norðurlöndunum og Japan. Blaðið New York Times segir í dag, að Rússar muni einnig leggja fram lánsfé. Það hefur blaðið eftir ónafngreindum embættismanni IMF.
„Það er ljóst af samskiptum okkar við önnur ríki, að ef og þegar samkomulag næst milli IMF og Íslands myndu nágrannar okkar vera fúsir að fylgja í kjölfarið," hefur Bloomberg eftir Össuri. „Við höfum þegar fengið staðfest það sem ég myndi kalla rausnarlega lánafyrirgreiðslu."
Hann segir að Noregur, Svíþjóð og Danmörk myndu væntanlega fylgja í kjölfar samkomulags við IMF og Japan hugsanlega einnig.
„Þetta er ekki hefðbundið lán, enda er þetta eina lánafyrirgreiðslan sem Íslendingar eiga kost á eins og málum er komið,“ segir Ólafur Ísleifsson, lektor við HR, við Morgunblaðið en hann sat í framkvæmdastjórn IMF. Ólafur segist búast við að slík lánafyrirgreiðsla verði veitt til þriggja til fimm ára. Miðað við 4% vexti á slíku láni til þriggja ára má búast við að vaxtakostnaður vegna lántökunnar verði tæpir 27 milljarðar á ári, 81 milljarður samtals.
Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir stöðuna ekki flókna, Ísland þurfi að leita eftir aðstoð IMF sem allra fyrst.
Athygli hefur vakið að Japanar hafi lagt sérstakaáherslu á að Íslendingum verði komið til aðstoðar. Er það fyrst og fremst vegna þess að þeir hafa sýnt mikla ráðdeild og þurfa að koma fjármagni í umferð. Auk þess sem
þeir óttast þau keðjuverkandi áhrif sem hrun íslensks hagkerfis hefði.