Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að SA geri nú ráð fyrir því að íslenska hagkerfið muni dragast saman um allt að 10% í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Hann segir að atvinnuleysi á næsta ári gæti orðið 6-8%.
„Við sjáum fyrir okkur að verg landsframleiðsla muni dragast saman um í kringum 10%," segir Vilhjálmur við Reutersfréttastofuna.
Hann segir að landsframleiðslan í ár verði líklega nánast óbreytt frá því sem var í fyrra því aukningin fyrr á þessu ári vegi upp þann samdrátt sem verði nú í árslok.
Vilhjálmur segir, að búast megi við að hagvöxtur verði á ný árið 2010 því tækifæri séu fyrir nýja aðila á íslenskum markaði, einkum í fjármálageiranum.
„Ég held, eða vona, að við munum ná okkur á strik fyrr en margir halda," segir Vilhjálmur. Hann segist búast við að 7000 störf muni tapast á næstu vikum og mánuðum og atvinnuleysi verði 3,5-4%. Það gæti farið í 6-8% á næsta ári sem yrði það mesta í meira en áratug.
Hann segir að afar fá fyrirtæki hagnist á þessari stöðu og útflutningsfyrirtæki verði fyrir tjóni, þrátt fyrir gengisfall krónunnar, vegna þess að markaðir hrörna.
Verst verði staðan þó væntanlega hjá byggingarfyrirtækjum og þjónustufyrirtækjum. Nú sé mikilvægast, að styrkja krónuna sem muni auðvelda viðskipti við útlönd.
Þá segir Vilhjálmur, að verðbólga, sem hafi verið vandamál á Íslandi árum saman, muni hjaðna þegar ró færist yfir gjaldmiðilinn. „Við munum ekki sjá neina varanlega verðbólgu," segir hann. „Við erum að horfa á breytingu á hlutfallslegu verði. Það mun ekki hefjast víxlverkum launa og verðlags og það sem við mælum sem verðbólga mun lækka.
Hann segir að stöðugur gjaldmiðill sé einnig lykillinn að því að koma í veg fyrir að kaupmáttur launa hrapi. Nú sé hins vegar útlit fyrir að kaupmáttur minnki um 15% á næstu 6-9 mánuðum.