Eigið fé Kaupþings 75 milljarðar

Höfuðstöðvar Kaupþings við Borgartún.
Höfuðstöðvar Kaupþings við Borgartún. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á næstu 90 dög­um mun fara fram mat óháðs aðila á verðgildi eigna og skulda og lo­ka­upp­gjör Kaupþings en nýr Kaupþing banki hef­ur verið stofnaður form­lega.  Eigið fé nýja bank­ans verður 75 millj­arðar króna sem ríkið legg­ur fram.  Stærð efna­hags­reikn­ings hins nýja banka verður um 700 millj­arðar króna.

Er Kaupþing sam­kvæmt þessu minnst­ur nýju rík­is­bank­anna þriggja. Eigið fé Nýja Lands­bank­ans verður 200 millj­arðar króna  og stærð efna­hags­reikn­ings um 2.300 millj­arðar króna. Eigið fé Nýja Glitn­is verður 110 millj­arðar króna og stærð efna­hags­reikn­ings um 1200 millj­arðar króna.

Nýi  bank­inn tek­ur yfir inn­lend­ar eign­ir Kaupþings til þess að tryggja eðli­lega banka­starf­semi og ör­yggi inn­stæðna á Íslandi. Alþjóðleg starf­semi Kaupþings er skil­in frá. Öll úti­bú, þjón­ustu­ver, hraðbank­ar og net­banki Kaupþings verða opin, að því er fram kem­ur á vef Fjár­mála­eft­ir­lits­ins.

Þann 9. októ­ber 2008 ákvað Fjár­máleft­ir­litið að nýta heim­ild Alþing­is með vís­an til 100 gr. a  laga nr. 161/​2002, sbr. lög nr. 125/​2008, vegna sér­stakra aðstæðna á fjár­mála­markaði, til að taka yfir rekst­ur Kaupþings banka hf.

Fjár­mála­eft­ir­litið hef­ur nú tekið ákvörðun um  að flytja hluta af starf­semi Kaupþings banka hf. til nýs banka sem stofnaður hef­ur verið og er að fullu í eigu ís­lenska rík­is­ins. Með ákvörðun­inni er tryggð áfram­hald­andi banka­starf­semi fyr­ir heim­il­in og fyr­ir­tæk­in í land­inu. 

Í ákvörðun­inni felst m.a. að nýi bank­inn yf­ir­tek­ur all­ar inn­stæðuskuld­bind­ing­ar í bank­an­um á Íslandi og sömu­leiðis stærst­an hluta eigna bank­ans sem tengj­ast ís­lenskri starf­semi s.s. lán og aðrar kröf­ur.

Nán­ar um ákvörðun Fjár­mála­eft­ir­lit­is­ins

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK