Hagnaður Svenska Handelsbanken, eins af stærstu bönkum Norðurlanda, jókst um 6% á þriðja ársfjórðungi samanborið við sama tímabil á síðasta ári. Bankinn segir að lausafjárstaðan sé afar sterk og að hann geti útvegað allt að 250 milljarða sænskra króna með tveggja sólarhringa fyrirvara.
Hagnaður nam 2,8 milljörðum sænskra króna en var 2,6 milljarðar í fyrra. Bankinn segir að þrátt fyrir umrót á fjármálamörkuðum hafi hann getað gefið reglulega út skuldabréf á sænskum markaði síðustu mánuðina.
Hreinar vaxtatekjur jukust um 22% og námu 4,9 milljörðum sænskra króna samanborið við 4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.