Norsk stofnun, Eksportfinans, sem sér um að veita veita lán og fjármögnun til að greiða fyrir útflutningi á norskum vörum, hefur kært Glitni til lögreglu og telur að bankinn hafi brotið lög í tengslum við lán, sem hann hafði milligöngu um. Lánin, sem námu samtals 415 milljónum norskra króna, um 7 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi, voru greidd upp en Glitnir virðist, að sögn Eksportfinans, hafa haldið eftir höfuðstólnum en greitt vexti og afborganir til Eksportfinans.
Sagt er frá þessu á norska viðskiptavefnum e24 í kvöld. Þar er haft eftir Gisele Marchand, framkvæmdastjóra Exportfinans, að krafist hafi verið lögtaks í Glitni ASA í Noregi, áður dótturfélagi Glitnis, sem selt var í morgun til norskra sparisjóða.
Eksportfinans veitti árið 2005 þrjú lán þar sem Glitnir á Íslandi var milliliður. Það þýddi, að öll samskipti milli Eksportfinans og lántakendanna fóru í gegnum íslenska bankann.
Þegar íslenska fjármálaeftirlitið tók Glitni yfir í byrjun október hringdi Eksportfinans til fyrirtækjanna þriggja með fyrirmæli um að greiða afborganir og vexti beint til stofnunarinnar en ekki til bankans í Reykjavík. Þá kom í ljós, að fyrirtækin þrjú höfðu þegar greitt lánin upp.
„Það sem hefur gerst er að nokkrir viðskiptavinir hafa greitt lán sín upp. Glitnir hefur haldið fénu eftir og haldið áfram að greiða vexti og afborganir. Frá okkar sjónarhóli leit það út sem verið væri að greiða af lánunum eins og venjulega. Þetta teljum við vera fjárdrátt," segir Marchand við vefinn og segist gáttuð á viðskiptasiðferði stjórnenda Glitnis.
Fram kemur að fyrsta lánið, 200 milljónir norskra króna, hafi verið greitt upp þegar árið 2006 en hin tvö á þessu ári. Marchand segist telja, að féð hafi farið til að fjármagna starfsemi Glitnis.
Fram kemur, að kæran til lögreglu beinist ekki gegn ákveðnum einstaklingum heldur bankanum. Þá leggur Marchand áherslu á að Glitnir í Noregi tengist ekki málinu.
Eksportfinans er í eigu norska ríkisins og norskra banka.