Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir að þær ásakanir sem norsk stofnun, Eksportfinans, heldur fram um að Glitnir hafi brotið lög í tengslum við lán sem bankinn hafði milligöngu um, hafi algjöran forgang hjá skilanefndinni og unnið sé að rannsókn málsins í samráði við lögmenn bankans.
Segir Árni að væntanlega verði send út fréttatilkynning síðar í dag þar sem upplýst er um málið og að skilanefndin muni skila forsætisráðherra og Fjármálaeftirlitinu ítarlegri skýrslu um ásakanir Eksportfinans. Nú liggi ekki nákvæmlega fyrir hvað hafi gerst varðandi þetta lán en það muni væntanlega skýrast síðar í dag.
Norsk stofnun, Eksportfinans, sem sér um að veita veita lán og
fjármögnun til að greiða fyrir útflutningi á norskum vörum, hefur kært
Glitni til lögreglu og telur að bankinn hafi brotið lög í tengslum við
lán, sem hann hafði milligöngu um. Lánin, sem námu samtals 415
milljónum norskra króna, um 7 milljarða íslenskra króna á núverandi
gengi, voru greidd upp en Glitnir virðist, að sögn Eksportfinans, hafa
haldið eftir höfuðstólnum en greitt vexti og afborganir til
Eksportfinans.