Stjórn IMF ræðir um Ísland

John Lipsky, aðstoðarframkvæmdastjóri IMF og Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri sjóðsins.
John Lipsky, aðstoðarframkvæmdastjóri IMF og Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri sjóðsins.

Breska blaðið The Times segir, að framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) hafi í kvöld setið á fundi og fjallað um hugsanlega aðgerðaáætlun til að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi Íslands. Hins vegar sé óttast, að deilur Íslendinga og Breta um tryggingar vegna Icesave-reikninga Landsbankans kunni að tefja málið.

Blaðið segir, að viðræðum íslenskra og breskra embættismanna hafi lokið í dag án niðurstöðu. Vísað er í fréttir þess efnis, að verið sé að ræða um að Englandsbanki láni Íslendingum 3 milljarða punda sem notaðir verði til að greiða breskum sparifjáreigendum fé sem tapast hefur á Icesave. The Times segir, að embættismenn í breska stjórnarráðinu segi að þessi tala sé of há.

Þá er vitnað til ummæla Péturs Blöndal, alþingismanns, um að hann teldi ekki að Alþingi myndi samþykkja slíkt lán. Kröfur hollenskra og breskra stjórnvalda vegna Icesave reikninganna séu fjórum sinnum hærri en stríðsskaðabætur, sem Þjóðverjar urðu að greiða eftir fyrri heimsstyrjöldina. 

Haft er eftir talsmanni breska fjármálaráðuneytisins, að viðræðurnar við Íslendinga muni halda áfram þótt þessari viðræðulotu hafi lokið í dag. 

„Hverskonar samkomulag við IMF er alltaf háð því, að lönd standi við skuldbindingar sínar og sýni lánardrottnum jafnræði. Bretland er ekki eina landið, sem tengist þessum ferli og aðrir lánardrottnar búast einnig við greiðslum."

Bresk stjórnvöld halda áfram að vinna með uppbyggilegum hætti að niðurstöðu með ríkisstjórn Íslands."

Bæði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sögðu við Morgunblaðið í kvöld að það væri ekki skilyrði af hálfu IMF fyrir hugsanlegri fjárhagsaðstoð, að samkomulag lægi fyrir við Breta um málefni Icesave.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK