Verð hlutabréfa hélt áfram að hrynja í Asíu í morgun og það sama er upp á teningnum í Evrópu í upphafi viðskiptadags. Óttast fjárfestar að yfirvofandi samdráttarskeið muni hafa mikil áhrif á afkomu fyrirtækja.
Nikkei hlutabréfavísitalan í Tókíó lækkaði um 9,6% í morgun og fór niður fyrir 8000 stig í fyrsta skipti frá árinu 2003. Afkomuviðvörun frá Sony í gær hafði sín áhrif og bréf fyrirtækisins lækkuðu um 12%. Þá lækkaði vísitalan í Seoul í Suður-Kóreu um 10%.
FTSE 100 hlutabréfavísitalan í Lundúnum lækkaði um 5% þegar opnað var fyrir viðskipti í kauphöllinni í Lundúnum klukkan 7 að íslenskum tíma. Í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 3,46% og í París lækkaði CAC vísitalan um 4,91%.
Í Stokkhólmi lækkaði S30 vísitalan um 5,29%, C20 vísitalan í Kaupmannahöfn lækkaði um 4,79%, H25 vísitalan í Helsinki lækkaði um 4,47% og í Ósló lækkaði vísitalan um 4,9%.