Erlendar skuldir banka og fyrirtækja 9.000 milljarðar

Erlendar kröfur á íslenska banka og önnur fyrirtæki voru samtals um 75,3 milljarðar dala, eða um 8.882 milljarðar íslenskra króna, í lok júní. Þetta kemur fram í tölum frá Alþjóðagreiðslubankanum (BIS) sem birtar voru í gærmorgun.

Þar af námu lán frá þýskum fjármálafyrirtækjum um 2.516 milljörðum íslenskra króna og voru um 28,4 prósent af öllum skuldum íslensku fyrirtækjanna.

Fjármálaráðherra sagði af sér

Á miðvikudag var sagt frá því að Bayerische Landesbank (Bayern LB) hefði fyrstur þýskra banka óskað eftir stuðningi frá þýska ríkinu til að koma í veg fyrir að hann færi í þrot. Samkvæmt þýskum fjölmiðlum var það meðal annars gert vegna þess yfirvofandi skells sem tengist lánum bankans til íslenskra fjármálastofnana.

Erwin Huber, fjármálaráðherra Bæjaralands og stjórnarformaður Bayern LB, sagði af sér í kjölfarið.

Íslenskir bankar og fyrirtæki skulda Bretum næstmest á eftir Þjóðverjum, eða tæpa 500 milljarða króna.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segist ekki eiga von á því að neitt af erlendum skuldum bankanna færist til nýju bankanna. „Það var skýrt kveðið á um það í neyðarlögunum að það eina sem færðist yfir í nýju bankanna væru íslenskir hagsmunir, útlán til íslenskra félaga, það sem þyrfti til að halda greiðslukerfinu gangandi og innlán á Íslandi.“

Til að vernda íslenska innviði

Hann segir þó að ekki megi gleyma því að miklu meira af eignum hafi verið tekið út úr „gömlu“ bönkunum inn í þá nýju heldur en af skuldum. Einu skuldirnar sem voru teknar yfir voru innlend innlán. „Eignir bankanna voru færðar yfir í þá nýju til að vernda íslenska innviði. Síðan munu óháðir aðilar meta raunvirði þessara eigna að frádregnum skuldum, sem eru innlánin. Þegar því er lokið verður útbúið skuldabréf sem fært verður yfir til gamla bankans. Þar verður skuldabréfið eitt af eignum hans sem verður á móti kröfum til að greiða út skuldir bankanna.“

Hinir óháðu aðilar hafa 90 daga frá stofnun hvers hinna nýju banka til að komast að niðurstöðu um hver mismunur eigna og skulda þeirra sé.

Þorri skuldanna er bankanna

Samkvæmt tölum frá Seðlabankanum voru erlendar skuldir íslenskra banka og fyrirtækja um mitt þetta ár um 8.840 milljarðar króna. Þar af voru skuldir innlánsstofnana, banka og sparisjóða, 8.086 milljarðar króna, eða rúmlega 90 prósent heildarskulda íslenskra fyrirtækja við útlönd.

Í lok síðasta árs voru erlendar skuldir íslenskra innlánsstofnana tæplega 6.000 milljarðar króna. Þær jukust því um fjórðung á hálfu ári.

Í hnotskurn
» Erlendar skuldir íslensku bankanna færast ekki yfir í nýju bankana.
» Eignir þeirra gerðu það hins vegar. Þær verða svo metnar á næstu mánuðum.
» Þegar því mati er lokið verður útbúið skuldabréf með mismuninum á milli skulda og eigna.
» Það skuldabréf verður síðan sett í þrotabú gömlu bankanna sem eign þeirra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka