Hlutabréf lækkuðu í kauphöllinni á Wall Street í kvöld eftir talsverðar sveiflur. Hlutabréfavísitölur lækkuðu mikið í upphafi viðskiptadags en réttu aðeins úr kútnum þegar á leið. Er þetta rakið til ótta fjárfesta við yfirvofandi samdráttarskeið sem muni hafa mikil áhrif á afkomu fyrirtækja.
Dow Jones hlutabréfavísitalan lækkaði á endanum um 3,59% og er 8378 stig. Nasdaq vísitala lækkaði um 3,23% og er 1552 stig. Gengi bréfa deCODE lækkaði um 10% og er 27 sent.
Afkomuviðvaranir frá raftækjaframleiðandanum Sony og bílaframleiðandanum Daimler höfðu mikil áhrif á hlutabréfamarkaði. Þá neyddust sumir vogunarsjóðir til að selja hlutabréf til að greiða skuldir.