Þúsundir manna á eynni Mön, sem áttu innistæðureikninga hjá Edge reikningum Kaupþings, íhuga nú að fara í mál við breska ríkið. Er það vegna þess að Bretar hafa neitað að tryggja innistæður Manverja hjá Kaupþingi.
Ríkisstjórn Manar stendur við bak innistæðueigendanna og mun í dag senda nefnd til Lundúna, þar sem þess verður krafist að innistæður Manverja í breskum útibúum verði sendar til eyjarinnar.
Eyjarskeggjar á Mön eru láta ekki þar við sitja, heldur hefur hópur 30
innistæðueigenda höfðað mál á hendur skiptastjóra Kaupþings í
Bretlandi. Höfðu þeir reynt að draga fé sitt út úr bankanum áður en
Kaupþing var tekið yfir af íslenska ríkinu, en bresk yfirvöld hafi
komið í veg fyrir það. Munu um 120 innistæðueigendur í viðbót hafa
áhuga á að koma að dómsmálinu.
Á vef breska blaðsins Times er einnig sagt frá því að hluthafar Kaupþings hafi ráðið lögmannsstofuna Grundberg Mocatta Rakison til að athuga grundvöll lögsóknar á hendur breska ríkinu. Telja margir hluthafar að ákvörðun breskra stjórnvalda að frysta eignir Kaupþings í Bretlandi hafi valdið því að bankinn fór í þrot.