Baksvið: Að fljóta sofandi að feigðarósi

Í seinni hluta þessa Baksviðs um hvernig varað var við …
Í seinni hluta þessa Baksviðs um hvernig varað var við yfirvofandi fjármálakreppu í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins mbl.is

Auk fréttafrásagna Morgunblaðsins af gagnrýnum umsögnum og úttektum greiningardeilda erlendra banka og fjármálastofnana, sem sagt er frá hér í öðrum tengdum pistli, var lagt út af þeim í ritstjórnargreinum blaðsins, forystugreinum og Reykjavíkurbréfum, þar sem hvatt var til þess að gangrýnin yrði tekin til skoðunar og brugðist við henni á réttan hátt. Hér eru sýnishorn af þessum vettvangi. 

Úr forystugrein 25. nóvember 2005 eftir fréttir af úttektum The Royal Bank of Scotland og Dresdner, Kleinwort, Wasserstein á íslensku bönkunum.

„Þessi uppákoma getur verið jákvæð að því leyti til að Íslendingar átti sig á því, að banka- og önnur fjármálastarfsemi er áhættusöm atvinnugrein, ekkert síður en fiskveiðar- og álframleiðsla. Það er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu, að velgengni íslenzku bankanna á erlendri grund verði endalaus og óstöðvandi. Bankastarfsemi hefur lent í kreppu ekkert síður en önnur atvinnustarfsemi, þótt ekki sé horft lengra til baka en síðustu hundrað ára. Þess vegna er mikilvægt að taka ekki of mikla áhættu og gæta fyllstu varkárni."

Úr forystugrein 2. febrúar 2006 eftir fréttir af úttektum Barclay Capital og Credit Sight

„Í fyrrasumar fór norska fjármálaeftirlitið fram á það við norska háskólaprófessorinn Thore Johnsen að hann skoðaði stöðu íslenzkra banka í ljósi mikilla fjárfestinga Íslandsbanka í Noregi og íslenzku bankanna á Norðurlöndum yfirleitt. Johnsen sagði í samtali við Morgunblaðið: „Það kom mér á óvart hversu einsleitt eignarhaldið er, mikið um krosstengsl og nánast ekkert erlent fjármagn til staðar. Útlán bankanna hafa auk þess aukist verulega, meðal annars til að fjármagna yfirtökur...

Á meðan efnahagslíf heimsins heldur áfram að dafna þurfa Íslendingar ekki að hafa neinar áhyggjur. Ef hins vegar í harðbakkann slær, hvort sem það verður í efnahagslífi Íslands eða Norðurlanda, þá mun staða íslensku bankanna snarbreytast til hins verra. Þeir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir þessu. Og það sem meira er, verði einn íslenskur banki fyrir skakkaföllum mun það einnig hafa áhrif á hina bankana.“

 Eins og sjá má er verulegur samhljómur með varnaðarorðum allra þessara aðila, bæði innlendra og erlendra. Bankarnir hafa stundum svarað gagnrýni frá erlendum aðilum með því að hún sýni vanþekkingu þeirra á íslenzka fjármálamarkaðnum, en það sama verður varla sagt um Fjármálaeftirlitið á Íslandi. Að sjálfsögðu ber ekki að líta á viðvaranir af þessu tagi sem heimsenda8 spár. Íslenzku bankarnir eru sterk og arðsöm fyrirtæki. En það er ekki tilviljun að sjónir svo margra beinast að eignatengslunum og þeirri aukaáhættu, sem þau fela í sér og ber að sjálfsögðu að gefa gaum."

Úr forystugrein 9. mars 2006 eftir fréttir af úttekt Merrill Lynch á íslensku bönkunum.

„Íslenzku bankarnir hafa tekið mikla fjármuni að láni á alþjóðlegum peningamörkuðum á hagstæðum kjörum, sem þeir hafa svo endurlánað til innlendra og erlendra viðskiptavina sinna. Skýringin á því mikla peningaflóði, sem fólk hefur verið að furða sig á hér hin síðustu ár og þeim milljarðaviðskiptum, sem gengið hafa fram og til baka eru ekki sízt þessar lántökur íslenzku bankanna á erlendum mörkuðum og endurlán þeirra fjármuna til viðskiptavina. Íslenzku bankarnir hafa hagnazt mikið á þessum viðskiptum enda hafa þeir fengið peningana að láni á hagstæðum kjörum. Nú eru sterkar vísbendingar um að þessi gullöld sé að baki og að íslenzku bankarnir geti ekki fengið peninga að láni með svo hagstæðum kjörum, sem hingað til. Sem getur leitt til þess að það borgi sig ekki fyrir þá að endurlána þá eða borgi sig ekki fyrir viðskiptavinina að taka þá að láni á þeim kjörum, sem í boði kunna að vera. Ein helzta gagnrýni greiningardeilda erlendu fjármálafyrirtækjanna á íslenzku bankana er sú, að þessi miklu lán séu tekin til skamms tíma og að það sé vaxandi áhætta fólgin í þessum lántökum. Þess vegna sé eðlilegt að þeir sem láni peningana geri kröfu um meiri áhættuþóknun og þar af leiðandi verði lántökurnar óhagstæðar...

Önnur megingagnrýni flestra eða allra þessara fyrirtækja á íslenzku bankana eru flókin eignatengsl á milli bankanna og viðskiptafyrirtækja þeirra. Það sé óvenjulegt að bankarnir séu jafnframt hluthafar í fyrirtækjum, sem um leið eru hluthafar í bönkunum."

Úr Reykjavíkurbréfi 12. mars 2006.

„Þær umræður, sem orðið hafa í kjölfar álitsgerða frá greiningadeildum nokkurra alþjóðlegra banka og fjármálafyrirtækja um fjárhagslega stöðu íslenzku bankanna, hafa að einhverju leyti komið forráðamönnum íslenzku bankanna á óvart. Þeir hafa sennilega ekki gert sér fulla grein fyrir því, hversu viðkvæmur hinn alþjóðlegi peningamarkaður er fyrir umræðum sem þessum enda aldrei kynnzt þeim fyrr. Þetta er í fyrsta sinn, sem íslenzkir bankar og fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir vanda sem þessum, sem getur orðið enn alvarlegri ef ekki er brugð8 izt rétt við. Kannski má segja að nú reyni fyrst á hæfni forystumanna bankakerfisins, sem flestir eru ungir að árum og hafa ekki staðið frammi fyrir vanda af þessu tagi áður. Þeir hafa búið við mikla velgengni en nú kemur í ljós hvernig þeim tekst að sigla fyrirtækjum sínum í gegnum ólgusjó alþjóðlegra fjármálasviptinga. Það er auðvitað ljóst, að við stöndum ekki frammi fyrir bankakreppu eða fjármálakreppu á þessari stundu. Því fer víðs fjarri. En kannski má segja, að í fyrsta sinn glitti í hana í fjarlægð...

Það er auðvitað tímabært að staða bankanna og umræður um þá á erlendum vettvangi verði rædd á Alþingi og þingmenn geri upp við sig, hvort löggjafarvaldið eigi með einhverjum hætti að koma við sögu. Er t.d. nauðsynlegt að efla Fjármálaeftirlitið mjög og heimildir þess til þess að tryggja, að bankarnir fari ekki út af sporinu? Er yfirleitt hugsanlegt að Fjármálaeftirlitið geti orðið nógu öflug stofnun í okkar litla umhverfi? Kannski er skynsamlegt að sameina Seðlabanka og fjármálaeftirlit á ný til þess að nægilegur styrkur sé þar fyrir hendi. Það skiptir máli í hinum alþjóðlega fjármálaheimi hvaða orðspor fjármálaeftirlit í viðkomandi löndum hafa. Ef það er gott er það mikill styrkur fyrir viðkomandi land. Ef það er ekki nógu gott veikir það fjármálakerfi þess sama lands. Er ástæða til að þingmenn ræði það, hvort nauðsynlegt sé að takmarka möguleika á eignatengslum á milli banka og fyrirtækja með lögum? Mundi slík löggjöf hugsanlega verða til þess að styrkja bankana mjög, þótt ganga megi út frá því sem vísu, að þeir sem þola engin afskipti af hinum svokallaða markaði mundu rísa upp og berjast hart gegn slíkum afskiptum? Umræður um þessi málefni eru tímabær og það þýðir ekki lengur fyrir stjórnvöld og þingmenn að láta sem ekkert sé. Viðbrögð okkar sem þjóðar á næstu vikum og mánuðum geta skipt sköpum um það, hvort við stöndum frammi fyrir alvarlegri fjármálakreppu á næstu misserum eða ekki."

Úr Reykjavíkurbréfi 23. mars 2008.

„Eins og útlitið er nú gæti farið saman mikil kjaraskerðing almennings á næstu mánuðum og alvarleg fjármálakreppa, sem er skollin á í Evrópu og Bandaríkjunum gæti dembst yfir okkar í lok þessa árs eða snemma á næsta ári, ef engin breyting verður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Hliðaráhrif fjármálakreppunnar eru þegar komin fram hér í hruni á hlutabréfamarkaðnum og miklum vandamálum þeirra, sem hafa verið umsvifamiklir á þeim markaði. Sumir eru fallnir fyrir borð. Aðrir hanga á bláþræði. Aðrar aukaverkanir eru þær, að íslenzku útrásarfyrirtækin standa frammi fyrir miklum erfiðleikum og spurning, hversu lengi þau komast hjá því að selja eignir. Raunar er ekkert sjálfgefið að þau geti selt eignir þurfi þau á því að halda.

Það geta því komið upp alvarleg vandamál á mörgum vígstöðvum á sama tíma og þá verður spurt hvað stjórnvöld hér ætli að gera. Hvað geta þau gert?

Íslenzka ríkisstjórnin hefur nákvæmlega engin áhrif á það, sem er að gerast á fjármálamörkuðunum út í heimi. Og þar er íslenzku bönkunum blandað inn í alls óskyld málefni með furðulegum hætti. Í einum virtasta fjármáladálki heims, dálki Lex í Financial Times var fyrir nokkrum dögum fjallað um fall eins stærsta fjármálafyrirtækis Bandaríkjanna, Bear Stern, og ástæður þess falls en fyrirtækið var selt fyrir nánast ekki neitt um síðustu helgi. Lex útskýrði ástæðurnar fyrir falli Bear Stern og bætti því við að af sömu ástæðum væru Lehman Brothers og íslenzku bankarnir „undir þrýstingi“. Það er erfitt að sjá samhengið á milli þessara stóru bandarísku fjármálafyrirtækja og litlu íslenzku bankanna en svona er skrifað. Það var svo bót í máli, að í öðrum áhrifamiklum fjármáladálki, breakingviews, í Wall Street Journal var fjallað um íslenzku bankana á mun jákvæðari hátt núna rétt fyrir páska.

Íslenzk stjórnvöld geta engin áhrif haft, hvorki á ástandið sjálft né svona umræður. Það er hlustað af kurteisi á íslenzka ráðamenn, þegar þeir kynna sína hlið á málunum en svo skrifa menn það, sem þeim hentar og þeir telja vera rétt.

Ríkisstjórnin verður hins vegar að horfast í augu við þann möguleika, að alvarleg fjármálakreppa geti blasað við hér vegna fjármögnunarvanda einhverra íslenzku bankanna undir lok þessa árs og á næsta ári. Hún getur ekki leitt hjá sér þá staðreynd, að þessi vandi geti komið upp. Hún verður að vera undir það búin og þarf að hafa gert sér grein fyrir, hvernig hún mundi bregðast við tilteknum aðstæðum, ef þær kæmu upp. Hún þarf með öðrum orðum að hafa varaáætlun.

Hún á eftir að fást við starfsmenn ríkisins, sem augljóslega eru með í uppsiglingu óraunhæfar kröfur í ljósi þess, hvernig aðstæður hafa breytzt. Hún á eftir að fást við kröfur einstakra starfshópa eins og hjúkrunarfræðinga, sem hóta uppsögnum ef ekki verði komið til móts við kröfur þeirra. Hún á eftir að fást við magnaða óánægju almennings vegna þess, sem áður var lýst, stórhækkandi afborgana af húsnæðislánum og almennt aukins kostnaður við daglega framfærslu, sem hlýtur að leiða til verulegs samdráttar í neyzlu...

... Hitt er alveg ljóst, að ríkisstjórnin getur ekki leyft sér þann munað að sitja hjá og gera ekki neitt.

En hvað getur hún gert? Hún getur búið sig undir að það versta gerist í fjármálageiranum, þannig að hún hafi alla vega undirbúið varaáætlun, sem vonandi þarf aldrei að grípa til. Í því sambandi getur vafalaust verið skynsamlegt að fara ofan í saumana á bankakreppunni á Norðurlöndum á tíunda áratugnum og kanna til hvaða ráða var þá gripið...

... Einhverjir kunna að spyrja, hvort hér hafi verið dregin upp of svört mynd af horfum í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Það kemur í ljós á næstu mánuðum og misserum, hvort svo hafi verið. En gleymum því ekki hvernig ein dýpsta efnahagslægðin, sem gekk yfir íslenzku þjóðina á 20. öldinni byrjaði. Hún byrjaði með því að það birtist frétt hér í Morgunblaðinu um að verð á fiskblokk á Bandaríkjamarkaði hefði lækkað um tvö sent á pundið. Það var upphafið. Afleiðingin af þessari tveggja senta lækkun ásamt hruni á síldveiðum og aflabresti á vetrarvertíð varð sú að í janúar 1969 voru fimm til sex þúsund manns atvinnulaus í Reykjavík.

Hvers konar ástand halda menn að yrði hér ef 10-15 þúsund manns yrðu atvinnulaus á Reykjavíkursvæðinu snemma á næsta ári?

Þess vegna er betra að vera of svartsýnn en of bjartsýnn. Það er betra að gera ráð fyrir hinu versta og búa sig undir það en fljóta sofandi að feigðarósi."

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK