Í kringum 150 starfsmönnum Kaupþings á Íslandi verður ekki boðið starf í Nýja Kaupþingi samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Munu þá rúmlega 1.100 starfsmenn starfa hjá Nýja Kaupþingi. Einhverju af starfsfólki hafði áður verið sagt upp frá síðustu áramótum. Þá störfuðu 1.262 starfsmenn hér á landi samkvæmt ársskýrslu félagsins en 3.400 hjá allri samstæðunni.
Finnur Sveinbjörnsson, forstjóri Nýja Kaupþings, vildi ekki staðfesta neina tölu í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann sagði að færri en 200 yrði sagt upp en fleiri en 100.
Hver starfsmaðurinn á fætur öðrum var boðaður á fund yfirmanna í gær þar sem tilkynnt var að þeim byðist ekki vinna í Nýja Kaupþingi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var ekki öllum sagt upp í gær sem missa vinnuna. Þessi vinna mundi klárast um helgina.
Tveir starfsmenn sem Morgunblaðið ræddi við í gær sögðu að fólk hefði verið niðurdregið. Annar þeirra missti vinnuna og sagði óvissuna framundan. Hinn sagði leiðinlegt að sjá á eftir mörgum vinnufélögum. Hvorugur vildi koma fram undir nafni vegna aðstæðna.