Misráðin ákvörðun sem endaði með skelfingu

Björgólfur Thor Björgólfsson kemur á fund ráðherra helgina áður en …
Björgólfur Thor Björgólfsson kemur á fund ráðherra helgina áður en neyðarlögin voru sett. mbl.is/Brynjar Gauti

Björgólfur Thor Björgólfsson sagði í viðtali við Kompás á Stöð 2 í kvöld, að ákvörðun ríkisvaldsins að yfirtaka Glitnis í lok september hefði verið afar misráðin og sett af stað atburðarás sem endaði með skelfingu.

Hann sagðist síðan hafa hætt að botna í atburðarásinni þegar hann horfði á sjónvarpið að kvöldi sunnudagsins 6. október og sá forsætisráðherra lýsa því yfir,  eftir mikil fundahöld helgarinnar, að engin þörf væri á aðgerðapakka.

Björgólfur sagði, að þessa helgi og helgina á undan hefðu bankarnir komið með tillögur um uppstokkun í kerfinu á þess að fá svör. Þær hefðu falist í því að stuðlað yrði að sameiningu Landsbanka, Glitnis og Straums til að skera niður kostnað. Ríkið kæmi inn í dæmið með eigið fé og eignaðist ráðandi hlut en tryggt yrði að það myndi ekki bera neina ábyrgð.

Þá sagði Björgólfur það vera sorglega niðurstöðu, að ekki skyldi hafa verið nýtt það tækifæri sem gafst þegar breska fjármálaeftirlitið bauð þennan sama sunnudag að Icesave reikningar Landsbankans í Bretlandi yrðu færðir undir ábyrgð breskra stjórnvalda á fimm dögum. Sagðist Björgólfur að skyndileg umskipti hefðu orðið í afstöðu breskra stjórnvalda þennan dag. M.a. hefði forstjóri breska fjármálaeftirlitsins tekið þátt í fundum um Landsbankann þennan sunnudag.

Hann sagði, að á mánudeginum hefði Landsbankinn þurft 200 milljónir punda til að leggja fram sem tryggingu og óskað eftir því að Seðlabankinn veitti þá upphæð að láni. Því hefði Seðlabankinn hafnað og þar með hefði tækifæri til að flytja ábyrgð á reikningunum til Breta verið kastað á glæ.

„Þetta var fyrirgreiðsla upp á 500 milljón evrur. Landsbankinn bauð tryggingar upp á 2600 evrur, fimm sinnum hærri en fyrirgreiðslan,” sagði Björgólfur. Hins vegar hefði Kaupþing fengið á sama tíma 500 milljóna evra lán hjá Seðlabankanum og boðið tryggingar upp á 1000 milljónir evra, hlutabréf í óskráðu dönsku fjármálafyrirtæki.

„Þetta er mér algerlega óskiljanlegt, algerlega og ég tel að hefðu menn  hugsað sitt ráð og unnið saman að þessu væri Icesave nú í breskri lögsögu og við værum ekki í þessum vandamálum og milliríkjadeilu við Breta. Mér finnst þetta óendanlega sorglegt að þetta skyldi fara eins og það fór,” sagði Björgólfur Thor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK