Verðbólgan nú 15,9%

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í október  hækkaði um 2,16% frá fyrra mánuði samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Vísitala neysluverðs án húsnæðis  hækkaði um 3,02% frá september.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 15,9% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 17,8%. Er þetta mesta verðbólga á ársgrundvelli hér á landi frá því í maí 1990 þegar verðbólgan var 18,1%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4% sem jafngildir 16,8% verðbólgu á ári (22,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis). 

Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 4,3% (vísitöluáhrif 0,55%) og verð á fötum og skóm um 4,9% (0,22%). Verð á húsgögnum, heimilistækjum, heimilisbúnaði o.fl. hækkaði um 7,1% (0,46%), á varahlutum og hjólbörðum um 19,6% (0,2%), á flugfargjöldum til útlanda um 18,7% (0,2%) og verð á sjónvörpum, dvd-spilurum, tölvum o.fl. hækkaði um 10,6% (0,15%).

Verð á bensíni og díselolíu lækkaði um 3,4% (-0,17%).

Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 1,3% (-0,21%). Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,24% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,03%.

Hagstofan segir, að hlutur húsnæðisviðskipta þar sem fasteignir og lausafé séu notuð sem greiðsla hefur vaxið verulega frá maí á þessu ári. Við núvirðingu kaupsamninga í viðskiptum af þessu tagi hefur verið ákveðið að hækka ávöxtunarkröfuna sem notuð er við útreikning á staðgreiðsluverðmæti fasteigna. Áhrifin af þessari leiðréttingu eru 0,22% til lækkunar á vísitölu neysluverðs.

Nýskráningar bifreiða hafa nánast stöðvast af efnahagsástæðum. Í ljósi þessa er ekki tekið tillit til breytinga á listaverði bíla frá september, en það hefði hækkað bifreiðalið vísitölunnar um 4,1% (áhrif 0,30%).
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK