Las Alistair Darling þetta bréf?
Þessarar spurningar er spurt í svonefndum Alphaville bloggdálki á vefsíðu breska viðskiptablaðsins Financial Times í dag. Er vísað í bréf, sem íslenska viðskiptaráðuneytið sendi til breska fjármálaráðuneytisins 5. október þar sem fjallað er um ábyrgðir tryggingarsjóðs innlána á innistæðum á Icesave-reikningum Landsbankans.
Síðan segir:
„Afrit af þessu bréfi gengur nú milli manna á Íslandi. Ef það er ósvikið styður það að nokkru leyti fullyrðingar Íslendinga um að þeir hafi gefið loforð um að vernda breskar innistæður í Icesave reikningum Landsbankans.
Útskrift af samtali Darling fjármálaráðherra og íslenska fjármálaráðherrans Árna M. Mathiesen sem átti sér stað daginn áður en Bretland frysti íslensku innistæðurnar virðast einnig ganga í berhögg við þá afstöðu Bretlands að Ísland hafi lýst því yfir að það ætlaði ekki að standa við loforð sín.
Í útskriftinni vísar íslenski ráðherrann til bréfs:
Við höfum tryggingasjóð innlána samkvæmt Directivinu og hvernig hann starfar er útskýrt í bréfinu og sömuleiðis loforð stjórnvalda um stuðning við sjóðinn."