Methagnaður var hjá breska olíufélaginu BP á þriðja ársfjórðungi, 10 milljarðar dala, og jókst um 148% frá sama tímabili í fyrra. Félagið segist hafa grætt á því þegar olíuverð fór upp í 147 dali tunnan í júlí en á móti hafi komið truflanir á framleiðslu á Mexíkóflóa vegna fellibylja og einnig hafði innrás Rússa í Georgíu haft áhrif.
Á fréttavef breska blaðsins The Times segir, að þessar tölur muni án efa auka á deilur um hvort olíufélögin bregðist við lækkandi olíuverði með því að lækka verð á eldsneyti til neytenda.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði í síðustu viku að hann myndi beita aðgerðum ef í ljós kæmi að olíufélög tregðuðust við að lækka eldsneytisverð í samræmi við verðlækkun á olíu.