Séreignarsparnaður, oftast kallaður viðbótarlífeyrissparnaður, er ekki tryggður nema um sé að ræða verðtryggðar innistæður hjá bönkum. Þetta staðfestir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða. Flestir lífeyrissjóðanna bjóða hins vegar margar mismunandi leiðir til þess að ávaxta þennan sparnað, meðal annars með því að setja hann í verðbréfasjóði. Á síðustu árum hafa verðbréfasjóðirnir enda gefið töluvert betri ávöxtun en innistæðurnar og því fjölmargir valið þær leiðir.
Í mörgum tilvikum tekur ávöxtunarleiðin mið af aldri þess sem sparar. Því eldri sem viðkomandi er, því minni áhætta á að vera í sjóðnum. Í mestu áhættuleiðunum var meira af hlutabréfum en í öðrum leiðum og í þeim sem áttu að bera minnstu áhættuna var mest af skuldabréfum.
Yfirlýsing forsætisráðherra um að verja uppsafnaðan viðbótarlífeyrissparnað var hins vegar aldrei lögfest. Þess í stað voru innlán sett framar skuldabréfum í kröfuröð og þau tryggð. Það setti samsetningu eigna íslensku lífeyrissjóðanna í uppnám, enda voru skuldabréf fram að því jafnrétthá innlánum í kröfuröð.
Davíð Harðarson, sjóðsstjóri Íslenska lífeyrissjóðsins, segir yfirvöld hafa með þessari aðgerð breytt leikreglunum eftir á. „Á einni nóttu var kröfuröð í þrotabú algjörlega breytt. Fyrir setningu neyðarlaganna voru skuldabréfin samhliða innlánum í kröfuröðinni og við unnum út frá því. En allt í einu voru innlán orðin rétthærri í þrotabúi heldur en skuldabréfin. Með þessu er búið að snúa kröfuröðinni á hvolf og kippa fótunum undan fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna.“