Sterling gjaldþrota

Stjórn danska lággjaldaflugfélagsins Sterling mun í dag óska eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu. Það er hætt starfsemi og eru þúsundir farþega á vegum félagsins strandaglópar í ýmsum Evrópulöndum. Einnig hafa margir keypt flugmiða hjá félaginu, sem það mun ekki endurgreiða.

„Þetta eru auðvitað gífurleg vonbrigði fyrir okkur sem höfum verið að reyna að semja um sölu á félaginu að undanförnu,“ sagði Pálmi Haraldsson, annar aðaleigandi Fons eignarhaldsfélags, sem á Sterling, í samtali við Morgunblaðið laust fyrir miðnætti í gær. Pálmi sagði það mjög sérstakt að til þessa hefði þurft að koma, þar sem vaxtaberandi skuldir Sterling hefðu engar verið.

„Eftir að bankakrísan skall á hefur þetta verið nánast óbærilegt. Lánardrottnar hafa reynst okkur mjög erfiðir og tryggingaþörfin hefur aukist mjög undanfarnar vikur. Við vorum komnir á þann stað, að við þurftum að ástunda staðgreiðslu í nánast öllum okkar viðskiptum.“

Erum rúin trausti

Hann sagði að samhliða mikilli veikingu krónunnar hefðu erfiðleikar félagsins aukist mjög. Lagðar hefðu verið inn í rekstur félagsins yfir 500 milljónir króna danskra á undanförnum þremur mánuðum, en allt hefði komið fyrir ekki.

„Þetta sýnir okkur, svo ekki verður um villst, að það er nánast útilokað fyrir Íslendinga að standa í fyrirtækjarekstri utan Íslands um þessar mundir. Við erum einfaldlega trausti rúin,“ sagði Pálmi og kvaðst harma það mjög að þessi hefði orðið niðurstaðan, ekki síst vegna starfsmanna og viðskiptavina félagsins.

Gjaldþrotið hefur áhrif á 30-40 þúsund manns

Danska ferðaskrifstofan Star Tour áætlar að 30-40 þúsund manns verði fyrir tjóni af völdum gjaldþrots Sterling og er þá um að ræða fólk sem hefur keypt farmiða hjá félaginu. Þeir sem eru í útlöndum verða að fara heim með öðrum félögum á eigin kostnað. Þeir sem hafa greitt með greiðslukortum eða í gegnum ferðaskrifstofur ættu þó að geta fengið endurgreitt.

Ekki er ljóst hve margir farþegar eru utan Danmerkur á vegum Sterling.  Síðasta flug félagsinsvar í gærkvöldi milli Lundúna og Kaupmannahafnar. Allar 30 flugvélar Sterling eru nú Kastrupflugvelli. 

Um 1100 manns hafa starfað hjá Sterling og hefur verið boðað til fundar með því klukkan 8:30 að íslenskum tíma í höfuðstöðvum félagsins í Kaupmannahöfn. 

Reynt að selja félagið

Reynt hefur verið að undanförnu að selja Sterling og kom fram í dönskum fjölmiðlum í gær að tveir hugsanlegir kaupendur hefðu lagt fram bindandi tilboð í félagið.  Félagið segir hins vegar í tilkynningu í morgun, að vegna óvissunnar á alþjóðlegum fjármálamarkaði hefði ekki tekist að komast að viðunandi niðurstöðu um sölu. 

Á sunnudag óskaði danska verslunarkeðjan Merlin, sem er í eigu Árdegis, eftir greiðslustöðvun. Verslanir Merlin hafa þó verið keyptar af verslunarkeðjunni Elbodan.

Sterling Airlines var stofnað árið 1962 af þeim Eilif Krogager, sem einnig stofnaði ferðaskrifstofuna Tjæreborg Rejser og Jørgen Størling. Félagið byrjaði með tvær DC-6B skrúfuþotur sem notaðar voru til að fljúga með Dani til Kanaríeyja. Árið 1986 var Sterling keypt út úr Tjæreborgsamsteypunni og varð sjálfstætt flugfélag. Það varð gjaldþrota árið 1993 en endurreist og árið 1995 komst það í eigu norska félagsins  Fred Olsen Line.

Pálmi Haraldsson keypti Sterling fyrir tæpa 5 milljarða króna árið 1995 og yfirtók skömmu síðar lágjaldafélagið Maersk Air, sem var í eigu  A.P. Møller-Mærsks. Félögin voru sameinuð. Í ársbyrjun 2006 keypti FL Group Sterling fyrir tæpa 15 milljarða króna og seldi það síðan aftur í desember 2006 til félagsins Northern Travel Holding, sem var m.a. í eigu FL Group og Fons. Fons eignaðist síðan Sterling að fullu í ágúst á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK