Bandaríski seðlabankinn lækkaði stýrivexti í kvöld um 0,5 prósentur og eru vextirnir nú 1%. Almennt var búist við þessari ákvörðun og hækkuðu hlutabréf í verði í gær og í dag í aðdraganda lækkunarinnar.
Síðast lækkaði bankinn stýrivexti 8. október í samvinnu við aðra alþjóðlega seðlabanka og var það liður í aðgerðum gegn lánsfjárkreppunni.
Í rökstuðningi bankastjórnarinnar segir, að efnahagsumsvif virðist hafa dregist umtalsvert saman, aðallega vegna minnkandi væntinga neytenda. Áfram sé hætta á samdrætti í bandaríska hagkerfinu.
Sumir sérfræðingar sögðu að tónninn í tilkynningu bankans benti til þess að vextir yrðu lækkaðir enn frekar en þó sé líklegt að fyrst verði lagt mat á áhrif lækkunarinnar nú vegna hættu, sem fylgir því að hafa stýrivexti undir 1%. Stýrvextir voru áður svona lágir árin 2003 og 2004 og er fasteignabólan í Bandaríkjunum rakin til þess.