Birna segist ekki hafa keypt bréf í Glitni

Birna Einarsdottir.
Birna Einarsdottir.

Birna Ein­ars­dótt­ir, banka­stjóri Nýja Glitn­is, seg­ir að einka­hluta­fé­lag henn­ar hafi  aldrei keypt nein hluta­bréf í Glitni hf. þar sem samn­ing­ur, sem hún gerði við bank­ann um hluta­bréfa­kaup árið 2007, hafi aldrei tekið gildi. Seg­ir Birna ljóst, að það voru mis­tök bank­ans að leiðrétta ekki til­kynn­ingu um kaup­in, sem send var til Kaup­hall­ar Íslands. 

Yf­ir­lýs­ing Birnu er eft­ir­far­andi:

„Vegna um­fjöll­un­ar fjöl­miðla síðustu daga um kaup einka­hluta­fé­lags í minni eigu á hluta­bréf­um í Glitni banka hf., sem reynd­ar aldrei voru fram­kvæmd, sé ég mig knúna til þess að senda frá mér yf­ir­lýs­ingu til að upp­lýsa málið enn frek­ar.

Ég hef full­an skiln­ing á þeirri tor­tryggni og reiði sem rík­ir meðal fólks. Öll viðskipti af þessu tagi þarf að skoða ofan í kjöl­inn. Ég harma þá nei­kvæðu um­fjöll­un sem hinn Nýi Glitn­ir hef­ur orðið fyr­ir vegna þessa og þau þungu orð sem fallið hafa og snú­ast um per­sónu mína.

At­b­urðarás­in

Þann 2. fe­brú­ar 2007 tók ég sæti í fram­kvæmda­stjórn Glitn­is banka hf. Hluti af kjör­um mín­um í því sam­bandi var kaup­samn­ing­ur um kaup á hluta­bréf­um í bank­an­um, eins og tíðkaðist al­mennt á fjár­mála­markaði á þeim tíma. Bank­inn bauð mér lán til 5 ára til að fjár­magna kaup­in. Í samn­ingn­um fólst að ef ég hefði hætt störf­um fyr­ir lok samn­ings­tíma bar mér að skila bréf­un­um og það var jafn­framt tekið fram að ég myndi ekki njóta hækk­un­ar á verði þeirra.

Ég gerði samn­ing við bank­ann og tók sæti í fram­kvæmda­stjórn. Ég stóð í þeirri mein­ingu að þessi viðskipti hefðu gengið í gegn, enda voru þau til­kynnt í Kaup­höll. Lánið var svo­kallað kúlu­lán og átti ekki að greiðast fyrr en með einni greiðslu þann 29. mars 2012 og þá með áfölln­um vöxt­um og kostnaði.

Á aðal­fundi Glitn­is banka hf. miðviku­dag­inn, 20. fe­brú­ar 2008 óskaði ég eft­ir at­kvæðis­rétti fyr­ir fé­lagið mitt. Þá kom í ljós að eng­in hluta­bréf voru skráð á um­rætt fé­lag og ég fékk því ekki þann at­kvæðis­rétt sem ég taldi fé­lag­inu bera.

Strax um kvöldið óskaði ég eft­ir skýr­ing­um hjá starfs­mönn­um bank­ans. Málið var tekið til skoðunar og farið vand­lega yfir alla verk­ferla. Hin lög­fræðilega skýr­ing sem ég fékk var að það hefði verið galli í lána­samn­ingn­um, þegar til átti að taka. Viðmið vaxta og verðbóta var ekki sami mánuður­inn og af þeim sök­um gat bakvinnsla ekki skráð lánið í kerf­in og voru viðskipt­in því aldrei kláruð. Mér var tjáð að málið hafi verið fært til bók­ar hjá reglu­verði. Bakvinnsla vakti máls á þessu við þann sem ábyrg­ur var fyr­ir fram­kvæmd viðskipt­anna. Þrátt fyr­ir það barst leiðrétt­ur lána­samn­ing­ur aldrei til bakvinnslu sem gerði það að verk­um að viðskipt­in gengu aldrei í gegn.

Þegar hér var komið sögu var mér tjáð að all­ar for­send­ur fyr­ir slík­um samn­ing­um væru brostn­ar. Ekki væri vilji inn­an bank­ans að standa við upp­haf­leg­an samn­ing, enda hafði ný­kjör­inn stjórn­ar­formaður boðað nýja stefnu varðandi kauprétti og ár­ang­ur­s­tengd­ar greiðslur til stjórn­enda bank­ans.

Ég gerði ekki at­huga­semd við þá niður­stöðu. Í raun þýðir þetta að fé­lag mitt keypti aldrei nein hluta­bréf í Glitni hf. þegar upp er staðið. Mér er þó ljóst að það voru mis­tök bank­ans að leiðrétta ekki til­kynn­ing­una í Kaup­höll. 

Ég hef ekk­ert að fela í þessu máli og upp­lýsti stjórn­ar­formann bank­ans um málið áður  en starfs­samn­ing­ur var und­ir­ritaður. Þá hef ég óskað eft­ir því við Fjár­mála­eft­ir­litið (FME) að það taki málið til skoðunar. Þegar hafa verið send gögn frá bank­an­um til FME vegna þessa og ég geri ráð fyr­ir því að stofn­un­in líti til þeirra í því hæf­is­mati sem ég mun  gang­ast und­ir sem banka­stjóri Nýja Glitn­is.

Eng­in laun­ung þarf að vera í þessu máli – hvorki af minni hálfu né annarra."

 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK