Fréttaskýring: Skortsalar í sárum

Merki Volkswagen.
Merki Volkswagen. AP

Glæsibílaframleiðandinn Porsche töfraði fram um helgina einhverja mestu hlutabréfabrellu allra tíma og hagnast gríðarlega um leið og það kenndi alræmdum vogunarsjóðum veraldar dýrkeypta lexíu. Má segja að Porsche hafi „hefnt þess í héraði sem hallaðist á Alþingi.“ fyrir hönd allra þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem eiga um sárt að binda eftir framgöngu þessa sjóða.

Það var laust eftir kl. 15 á sunnudag sem bílaframleiðandinn lét sprengju sína falla. Verðbréfasali einn í London lýsir þessu svo á vef The Daily Telegraph:

„Ég var í labbitúr, kíkti í BlackBerry-inn minn - hljóp svo eins og brjálæðingur heim til mín. Ég gekk út frá að tölurnar væru vitlausar en þegar miðlari sagði mér að hann væri búinn að fá fullt af örvæntingarfullum samtölum, vissi ég að þetta var satt.“

Verðbréfasali þessi var einungis einn hundruð manna sem tengdust vogunarsjóðum og veðjað höfðu mörgum milljónum evra á að hlutabréf í Volkswagen myndu falla. Tíðindin um að sportbílaframleiðandinn myndi auka hlut sinn í þessum stærsta bílaframleiðanda Þýskalands í 75% koma eins og þruma úr heiðskíru loft og var hreint áfall fyrir skortsalana,

Porsche átti fyrir 42,6% hlut í VW og Neðra Saxland 20% svo að þessi 31,5% hlutur til viðbótar þýddi að ekki var eftir nema um 5% hlutur á lausu til að mæta skortstöðum sem jafngiltu nærri 13% hlut í fyrirtækinu.

Porsche lýsti því yfir að það veitti þessar upplýsingar um aukinn hlut sinn til að „gefa skortsölum tækifæri til að loka stöðum sínum í tíma og án aukinnar áhættu“, eins og það var pent orðað.

Í þess stað var hins vegar í uppsiglingu mesta skort-kreppa í manna minnum.

Strax og markaðir opnuðu á mánudeginum reyndi starfslið vogunarsjóða og fjárfestingafyrirtækja allt hvað það gat til að mæta þeim skortstöðum sem fyrir lágu. Spurnin eftir hlutabréfum VW sendi gengi bréfanna upp í hæstu hæðir sem jók enn á tapið á skortstöðunum og neyddi marga sem vonast höfðu til að geta staðið storminn af sér til að kaupa þvert gegn vilja sínum.

Markaðsmisnotkun í athugun

Örvæntingin varð slík um tíma þennan dag að Volkswagen-bílaframleiðandinn varð stærsta fyrirtæki heims miðað við markaðsvirðið, enda hækkuðu bréfin um nærri 400% þegar atgangurinn var hvað mestur. Og eftir því sem tapið jókst, þeim mun meiri urðu formælingarnar. Vogunarsjóðirnir töldu stórlega hafa verið að sér vegið, sérstaklega að Porsche skyldi komast upp með að auka við hlut sinn í þetta miklum mæli - nánast í skjóli nætur. Ekkert hins vegar bannar slíkt samkvæmt þýskum reglum.

„Hegðan af þessu tagi hjá skráðu félagi hefði ekki verið leyfð í Bretlandi eða Bandaríkjunum. En við getum ekki vænst neinnar aðstoðar hjá þýskum stjórnvöldum - hér er verið að endurgjalda greiða,“ er haft eftir einum forsvarsmanni vogunarsjóðs.

Og það er nokkuð til í því - Þjóðverjar hafa haft sérlega illan bifur á vogunarsjóðunum og gróðabralli þeirra. Fyrrum viðskiptaráðherra landsins lét einhverju sinni þau orð falla um vogunarsjóðina að þeir réðust á góð og velrekin fyrirtækið og líkt og engisprettufaraldur skyldu þau eftir sig sviðna jörð áður en næsta fórnarlamb væri leitað upp.

Þótt vogunarsjóðir og skortsalar geti ekki vænst neins góðs af hálfu þýskra yfirvalda hefur samt fjármálaeftirlitið þýska tekið málið til athugar og mun kanna hvort markaðsmisnotkun af einhverju tagi hafi átt sér stað. Taldar eru þó litlar líkur á að nokkuð slíkt komi upp úr kafinu,

Porsche ákvað í gær að liðka aðeins um viðskipti með bréfin í Volkswagen með því að setja í sölu um 5% hlut í formi kaupréttar í almennum bréfum, sem aftur varð til þess að bréfin féllum verulega eftir hækkunina miklu í byrjun vikunnar. Volkswagen tilkynnti svo í gær að hreinn hagnaður fyrirtækisins hefði aukist um 28% á þriðja ársfjórðungi, aðallega vegna söluaukningar í nýmarkaðslöndum, eins og Kína, Rússlandi og Indlandi. Það sem meira er - fyrirtækið sagðist halda sig við fyrri áætlanir um söluaukningu á þessu ári frá því í fyrra

„Volkswagen hefur vegnað vel hingað til í erfiðu umhverfi, “ sagði forstjórinn Martin Winterkorn í tilkynningu. „Við erum með unga og umhverfisvæna tegundalínu, sveigjanlega framleiðslu, sterka fjárhagsstöðu og frábært starfslið og undirstöður fyrirtækisins eru því sterkar."

Gengi bréfa í félaginu hækkaði á ný við tilkynninguna um 12% í 577 evrur á hlut sem er auðvitað engin ósköp miðað við yfir 1000 evrur á hlut þegar uppnámið varð sem mest.

En þetta er ekki sú lækkun sem veðjað hafði verið á. Eftir sitja því vogunarsjóðirnir með enn eitt áfallið og sárt ennið - og skortsalar „harma hlutinn sinn“.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK