Lán Candy-bræðra og Kaupþings gjaldfellt

Candy bræður berjast nú um hæl og hnakka til að …
Candy bræður berjast nú um hæl og hnakka til að bjarga Beverly Hill-framkvæmdinni

Lánadrottnar hafa gjaldfellt 365 milljóna dala lán hjá einhverju þekktasta og umsvifamesta fasteigna- og verktakafyrirtæki Bretlands, CPC Group, vegna lands sem það festi kaup á í Beverly Hills í Hollywood á síðsta ári með það fyrir augum að reisa þar smáíbúðabyggð í hæsta gæðaflokki. Þykir þetta enn ein vísbendingin um stöðugt versnandi horfur á fasteignamarkaðinum vestan hafs.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal skýrir frá því að hrikt hafi í stoðum CPC Group Ltd., sem er í eigu bresku Candy-bræðranna, síðustu vikur eftir hrun helsta samstarfsaðila þeirra, Kaupþings banka, sem íslenska ríkið hafi nú tekið yfir. Um leið hafi fyrirtækið staðið frammi fyrir því að fá ekki fjárfestingalán til framkvæmdarinnar þar sem bankar hafi dregið að sér hendur á þessum markaði sem sé óðfluga að þorna upp.

Blaðið segir að CPC hafi reynt að semja um breytingar á láninu eða framlengingu þess frá því snemma í mánuðinum. Allar tilraunir til þess hafi verið árangurslausar og Credit Suisse Group, sem fari fyrir hópi lánadrottna, hafi í gær látið gjaldfella lánið fyrir fógetarétti í Los Angeles. Þetta er sagt fyrsta skrefið í kröfu um nauðungaruppboð, en það hindrar þó ekki málsaðila í að halda áfram samningaviðræðum um leiðir til að forða því að verkefnið fari í þrot.

The Wall Street Journal segir að gjaldfelling umrædds láns sé til marks um að lána- og fasteignakreppan í Bandaríkjunum fari enn versnandi. Hún hafi byrjað á síðasta ári með vandræðum íbúðaeigenda og þurrki nú upp fjármögnunarmöguleika á markaðinum fyrir atvinnuhúsnæði, allt frá skrifstofuháhýsum í New York til hótelbygginga í Las Vegas og smáhýsahverfa stranda á milli.

Í tilfelli Beverly Hills-framkvæmdarinnar hafi verktakarnir tekið skammtímalán til lóðakaupanna með það fyrir augum að skipta því út með framkvæmdaláni til lengri tíma en sá lánamarkaður sé uppurinn. Umrædd framkvæmd sé ein af þremur slíkum í Los Angeles um þessar mundir sem kunni að vera í uppnámi vegna lánakreppunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK