Bandaríska olíufélagið Exxon Mobil Corp., stærsta almenningshlutafélag heims, sló eigið met í hagnaði bandarísks fyrirtækis á nýliðnum ársfjórðungi þegar hagnaðurinn var 14,83 milljarðar dala, jafnvirði 1730 milljarða króna. Er það 33% meira en verg landsframleiðsla Íslands.
Verð á hráolíu var í hámarki í júlí í sumar og það endurspeglast í afkomu ExxonMobile. Hagnaður félagsins jókst um nærri 58% miðað við sama tímabil á síðasta ári og tekjurnar námu 137,7 milljörðum dala, jukust um 35%. Á öðrum ársfjórðungi nam hagnaður ExxonMobile 11,68 milljörðum dala sem þá var met.