Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hyggst veita 100 milljörðum dollara í sérstakan sjóð ætlaðan þjóðum sem eiga í tímabundnum fjárhagslegum vandræðum en eru almennt vel á sig komnar.
Peningarnir yrðu þá nýttir í að lána þjóðum í skyndi og til skamms tíma. Wall Street Journal segir lánin verða til þriggja mánaða og eigi að geta verið afgreidd innan 72 tíma frá umsókn.
Aðgerðirnar geri það auðveldara fyrir lönd eins og Mexíkó, Brasilíu og Kóreu að efla gjaldeyrisvarasjóði sína, styrkja gengi eigin gjaldmiðils og styrkja fyrirtæki í vandræðum vegna flótta erlendra fjárfesta.
Fyrrnefnd lönd hafa hunsað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna skilyrða sem sjóðurinn setur við lánveitingar, svo sem hækkun stýrivaxta. Slíkum skilyrðum sé ætlað að aðstoða þjóðir að safna gjaldeyrisforða til að geta greitt fyrir innflutning nauðsynjavara. Þær hafi þó einnig oft þau áhrif að djúpar neikvæðar hagsveiflur fylgi, sem geri Alþjóðagjaldeyrissjóðinn óvinsælan kost.
Samkvæmt frétt WSJ er sjóðurinn um þessar mundir að skipta löndum í A-lönd og B-lönd, þar sem A-löndin fái lán án skilyrða.