Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, mun njóta fulltingis starfsmanna efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, Fjármálaeftirlits, Samkeppniseftirlits og skattrannsóknarstjóra í athugun á því hvort eitthvað í starfsemi gömlu bankanna gefi tilefni til rannsóknar og eftir atvikum saksóknar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála.
Bogi var fenginn til verksins af Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara. Björn Bjarnason kynnti rannsóknina á bönkunum á Alþingi fyrir réttum tveim vikum, þar sem kom fram að ríkissaksóknari myndi hafa forystu um skýrslugerð um starfsemi bankanna. Slík skýrsla á að vera tilbúin fyrir lok þessa árs.
„Fjármálaeftirlitið vinnur að þessum málum og það eru endurskoðendur í öllum bönkunum sem eru að yfirfara gögn,“ segir Bogi. Hann vill ekki gera of mikið úr skýrslugerðinni, það sé ekki venjan að ákæruvaldið geri skýrslur. Hann segir að engin vinna sé hafin í bönkunum af hálfu ríkissaksóknara, en verið sé að leggja á ráðin um hvernig að henni verði staðið. Valtýr Sigurðsson lýsti því yfir í síðustu viku að það væri æskilegt að erlendir sérfræðingar kæmu að athuguninni.
Forsætisráðherra hefur sagt að hann vilji láta gera „hvítbók“ um bankana, en ekkert liggur fyrir um hvernig að henni verði staðið, samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu. Ef af skýrslugerð ríkissaksóknara verður liggur því fyrir að tvær skýrslur verða gerðar um starfsemi bankanna.