Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs í Bretlandi og Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, voru meðal þeirra sem fögnuðu því í Lundúnum í gærkvöldi að ný verslunarmiðstöð var opnuð þar í borg. Meðal verslana í miðstöðinni í Westfield er House of Fraser sem er í meirihluta eigu Baugs.
Segir á vefnum drapersonline.com að þeir Jón Ásgeir og Gunnar hafi ekki sést mikið opinberlega í borginni frá hruni íslensku bankanna fyrr í mánuðinum.
Gunnar sagði í samtali við Drapers að ákveðin biðstaða væri í gangi og að staða Baugs væri óljós á meðan ekki lægi fyrir hvað myndi gerast í íslensku efnahagslífi. „Þetta getur ekki staðið yfir í mánuð eða mánuði," sagði Gunnar. Hann bætti við að Baugur ætti í tuttugu félögum. Sum þeirra standi betur en önnur.
Westfield verslanamiðstöðin er í vesturhluta London og hýsir 265 verslanir.
Á vef Baugs kemur fram að auk House of Fraser munu Karen Millen,
Oasis og All Saints – allt verslanir að hluta til í eigu Baugs, einnig opna í stærstu verslunarmiðstöð Evrópu, Westfield verslunarmiðstöðinni.
„Þetta er fjórða verslun HoF síðan
Highland Group Holdings eignaðist félagið í nóvember 2006. Meðal þeirra
eru verslanirnar í High Wycombe í Belfast á Írlandi og í Cabot Cirkus í
Bristol.
Síðan nýir eigendur tóku við hefur stjórn fyrirtækisins
mótað langtímastefnu, sem felur í sér fjárfestingar í verslunum og
vörumerkjum. Einnig er lögð áhersla á betri þjónustu við
viðskiptavininn og rekstrarhagræðingu," samkvæmt vef Baugs.