Af viðskiptavinum í peningamarkaðssjóðum bankanna þriggja sem ríkið hefur yfirtekið tapa viðskiptavinir Landsbankans mest. Þeir sem áttu í peningamarkaðssjóði bankans í íslenskum krónum fengu greitt út sem nemur 68,8 prósentum af eignum hans. Það þýðir að þeir hafa tapað um þriðjungi þeirrar eignar sem þeir áttu í sjóðnum áður en honum var lokað.
Glitnir tilkynnti greiðslur úr sínum peningamarkaðssjóði, Sjóði 9, á fimmtudag. Samanlögð rýrnun eigna þeirra sem áttu í sjóðnum frá 29. september, þegar honum var fyrst lokað, var tæplega 21 prósent. Þann dag var töluvert af skuldabréfum frá Stoðum, áður FL Group, í sjóðnum en Stoðir eru í greiðslustöðvun. Þegar Sjóður 9 var opnaður aftur til skamms tíma þann 1. október hafði Glitnir keypt öll bréf Stoða út úr honum. Þann 30. júní síðastliðinn skulduðu Stoðir Sjóði 9 18,4 milljarða króna. Það eru síðustu opinberu upplýsingar sem liggja fyrir um samsetningu sjóðsins. Glitnir hefur ekki viljað upplýsa hvert útgreiðsluhlutfallið hefði verið ef Stoðabréfin hefðu ekki verið keypt út.