Ekkert er hæft í því að Fjármálaeftirlitið hafi látið fella niður kröfur eða tryggingar em tengjast lánveitingum til starfsmanna bankanna líkt og haldið er fram í tölvupósti sem gengur nú á milli manna. Þar er því haldið fram að Fjármálaeftirlitið hafi haldið fram þeim rökum að ómögulegt sé að manna stöður yfirmanna í bönkunum nema það sé gert.
Fréttavefur Morgunblaðsins óskaði eftir upplýsingum um þetta mál hjá Fjármálaeftirlitinu og segir í svari FME: „Í ákvörðunum FME vegna ráðstöfunar eigna og skulda til nýrra banka er ekkert vikið að því að fara eigi sérstaklega með skuldbindingar starfsmanna bankanna. Þær lúta sömu lögmálum og önnur lán sem fluttust yfir til nýju bankanna.
Í ákvörðunum vegna Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. er gert ráð fyrir því að öll útlán í útibúum á Íslandi flytjist yfir til nýju bankanna sem verða þá kröfuhafar samkvæmt þeim lánasamningum og skuldabréfum sem um ræðir. Það verður þá nýju bankanna að innheimta þær kröfur sem og aðrar á grundvelli þeirra trygginga sem fyrir liggja. Það er því rangt að Fjármálaeftirlitið hafi sérstaklega samþykkt niðurfellingu krafna eða trygginga sem tengjast lánveitingum til starfsmanna bankanna.“
Í tölvupósti sem óskað er eftir að viðtakendur láti ganga er því haldið fram að yfirmaður í einum bankanna hafi tapað 2 milljörðum (mest tekið að láni). Segir að allar hans skuldir hafi verið hreinsaðar upp og eins skuldir mörg hundruð annarra bankastarfsmanna upp á gríðarlegar fjárhæðir.
Í tilkynningu frá Finni Sveinbjörnssyni, bankastjóra Kaupþings, kemur fram að samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 var öllum eignum Kaupþings banka hf., hverju nafni sem nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., meðal annars skuldir vegna verðbréfakaupa viðskiptavina, þar með talið starfsmanna.
„Engin ákvörðun hefur verið tekin um uppgjör þessara skulda en unnið er að lausn þessara mála í samvinnu við viðskiptavini.
Að öðru leyti getur bankinn ekki tjáð sig um atriði sem lúta að einkamálefnum viðskiptavina hans."