Hráolíuverð lækkar enn

Friðrik Tryggvason

Versnandi efnahagsástand víða hefur haft áhrif til lækkunar á hráolíuverði sem og bensínverði, neytendum til hagsbóta. Verð á bensíni í framvirkum samningum hefur lækkað um tæp 9% á NYMEX markaðnum í New York í dag og virðist allt benda til þess að samdráttarskeið sé hafið í Bandaríkjunum, ef marka má skoðanir hagfræðinga.

Í dag voru birtar tölur um vísitölu framleiðsluverðs í Bandaríkjunum í október og mælist vísitalan nú 38,9 stig.  Ef hún fer niður fyrir 50 stig er talað um samdrátt. Síðast þegar vísitalan var á svipuðu róli og nú, í september 1982 glímdi bandaríska þjóðin við mikinn samdrátt í efnahagslífinu.

Verð á hráolíu fór hæst í rúmlega 69 dali tunnan í dag en í kvöld fór verð á hráolíu til afhendingar í desember niður um 3,87 dali tunnan og var lokaverðið á NYMEX í kvöld 63,91 dalur tunnan. Í Lundúnum var lokaverð á Brent Norðursjávarolíu til afhendingar í desember 60,48 dalir tunnan sem er lækkun upp á 4,84 dali frá því á föstudag. 

Gallonið af bensíni lækkaði umtalsvert og endaði í 2,41 dal eða 63 sentum lítrinn. Er það 30% lækkun frá síðasta mánuði.
Virðast sérfræðingar á olíumarkaði nú sannfærðir um að verðið á hráolíu haldist í 60-70 dölum tunnan næstu mánuði og er það talsverð lækkun frá spám þeirra fyrir nokkrum mánuðum síðan er flestar spár hljóðuðu upp á 100 dali tunnan eða meira. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK