Útgefendur skuldatrygginga á skuldir íslensku viðskiptabankanna munu að öllum líkindum verða fyrir miklu tapi vegna gjaldþrota bankanna.
Í frétt á vef Bloomberg segir að á markaði með tryggingarnar seljist þær á 3-5% af fjárhæðum viðkomandi skuldabréfa. Af því má lesa að fjárfestar telja að ekki muni fást meira greitt úr þrotabúum bankanna.
Þegar skuldabréf eru gefin út er það viðtekin venja að kaupendur skuldabréfanna kaupi ennfremur tryggingar til að verja sig gegn hugsanlegu gjaldþroti útgefanda. Komi til þess að útgefandi skuldabréfs fari í þrot fær eigandi bréfsins greidda tryggingu, en tryggingafélagið fær bréfið í hendur.
Í frétt Bloomberg er haft eftir sérfræðingi hjá þýska fjárfestingarfélaginu UniCredit SpA að búast megi við því að tryggingafélögin fái nánast ekkert upp í skuldabréfin.