Ríkisstjórnir Evrópusambandsríkjanna hafa samþykkt að veita Ungverjalandi 6,5 milljarða evra lán. Lánveitingin er hluti af björgunarpakka til þess að bjarga efnahag landsins. Er þetta í fyrsta skipti sem ESB veitir lán úr neyðarsjóð sem stofnaður var fyrir sex árum til þess að veita ríkjum innan sambandsins aðstoð í erfiðleikum.
Lánið er til fimm ára og er hluti af 25,1 milljarðs evra björgunarpakka Ungverjalands. Gjaldmiðill Ungverjalands hrundi í síðasta mánuði og er láninu ætlað að aðstoða stjórnvöld við að greiða skuldir sem fallnar eru á gjalddaga.
Fastlega er gert ráð fyrir því að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn samþykki á morgun að veita Ungverjum lánaheimild til sautján mánaða upp á 15,7 milljarða evra. Jafnframt mun Alþjóðabankinn lána Ungverjum 1,3 milljarða evra. Ekki er talið að Ungverjaland þurfi að nýta sér lánaheimildir að fullu.
Yfirmaður evru-málefna hjá Evrópusambandinu, Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, hvatti í dag önnur Evrópusambandsríki til þess að hika ekki við að leita til ESB áður en leitað er eftir fjárhagsaðstoð hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.