Stjórnarformaður norsku stofnunarinnar Eksportfinans útilokar ekki, að stofnunin kæri stjórn Glitnis á Íslandi til lögreglu ef 415 milljónir norskra króna, sem Eksportfinans telur að bankinn hafi stungið undan, verða ekki endurgreiddar án tafar.
„Við útilokum ekki að kæra einstaklinga," segir Geir Bergvoll, stjórnarformaður Eksportfinans og deildarstjóri í norska bankanum DnB Nor, við blaðið Dagens Næringsliv. DnB Nor er stærsti hluthafi í Eksportfinans, sem er í eigu 26 banka og norska ríkisins.
Fram hefur komið að Glitnir hafði á sínum tíma milligöngu um lán frá Eksportfinans. Lántakendurnir greiddu vexti og afborganir af lánunum til Glitnis, sem greiddi síðan Eksportfinans að frádreginni þóknun.
Í ljós kom, þegar íslenska ríkið greip inn í rekstur Glitnis, að þrjú norsk útgerðarfélög höfðu greitt upp lán sín á árunum 2006 og 2007. Glitnir virðist hins vegar hafa greitt áfram af lánunum eins og ekkert hefði í skorist en haldið höfuðstólnum eftir.
Eksportfinans telur að Glitnir hf. á Íslandi hafi gerst sekur um fjárdrátt. Þess vegna hefur stofnunin gert lögtak í hlutabréfum Glitnis á Íslandi í Glitni Bank í Noregi. Þýski bankinn KrW hefur gert slíkt hið sama.
Skilanefnd Glitnis sendi frá sér yfirlýsingu 22. október þar sem sagði, að komi í ljós að mistök hafi verið gerð að hálfu gamla Glitnis verði allt gert til að reyna að leysa málið í samráði við Ekportfinans. M.a. væri verið að skoða hvort hægt væri að koma að fullu til móts við kröfur Ekportfinans án þess fara á svig við íslensk lög eða raska jafnræði kröfuhafa.