Persónulegar ábyrgðir starfsmanna felldar niður

Sverrir Vilhelmsson

Stjórn Kaupþings banka ákvað á fundi sínum þann 25. september síðastliðinn að fella niður  persónulegar ábyrgðir starfsmanna af lánum til hlutabréfakaupa í Kaupþingi banka. Á þeim tíma var verðmæti hinna veðsettu hlutabréfa meira en fjárhæð eftirstöðva skulda. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrrverandi stjórn Kaupþings.

„Vegna fallandi hlutabréfaverðs og aukins fjármagnskostnaðar var það mat stjórnar að einkum væri um tvær leiðir að velja. Annað hvort að starfsmenn seldu hlutabréf sín og greiddu þannig upp lánin eða að bankinn felldi niður það sem eftir stæði af  ábyrgð starfsmanna á lánum vegna hlutabréfakaupa í bankanum.

Það var mat stjórnar að hefðu lykilstarfsmenn bankans hafið stórfellda sölu á hlutabréfum sínum í bankanum hefði það, í ljósi viðkvæms ástands á fjármálamörkuðum, skaðað mjög stöðu bankans. Þann 25. september, þegar ákvörðunin var tekin var staða Kaupþings banka góð og sú atburðarás sem fylgdi í kjölfarið ekki fyrirséð,"  að því er segir í yfirlýsingu. 

Engin lán stjórnenda afskrifuð

Vegna umfjöllunar fjölmiðla síðustu daga í tengslum við lánamál starfsmanna Kaupþings banka er rétt að það komi fram að engin lán hafa verið afskrifuð á stjórnendur Kaupþings banka. 
 
„Á aðalfundi félagins 2004 var samþykkt að kaup- og söluréttir gætu á hverjum tíma numið allt að 9% af útgefnu hlutafé í bankanum. Með sölurétti voru starfsmenn tryggðir fyrir því að ekki reyndi á persónulega ábyrgð þeirra fyrir skuldinni.

Á árinu 2005 óskaði stjórn bankans eftir því að starfsmenn féllu frá sölurétti á hlutabréfum í bankanum. Stjórnin tók jafnframt þá ákvörðun í að gera ráðstafanir til þess að draga úr persónulegri áhættu starfsmanna af lántökum vegna hlutabréfakaupa í bankanum við niðurfellingu söluréttar, enda litið svo á að hagsmunir bankans og starfsmanna fælust í því að takmarka slíka áhættu.
 
Á árinu 2005 var starfsmönnum óheimilt að draga úr áhættu sinni með því að stofna félög utan um kaup á hlutabréfum í bankanum, þar sem slíkt var að mati Fjármálaeftirlitsins talið andstætt gagnsæi á fjármálamarkaði. Þegar persónuleg ábyrgð starfsmanna var takmörkuð var tryggingarstaða bankans í undirliggjandi hlutabréfum afar sterk vegna mikillar verðhækkunar hlutabréfanna. Flestir þessara starfsmanna höfðu keypt hlutabréf í bankanum við skráningu hans og höfðu þau hækkað verulega," samkvæmt yfirlýsingu frá fyrri stjórn Kaupþings.
 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK