Mesti afgangur á vöruskiptum frá því mælingar hófust

Greining Glitnis segir að 10,6 milljarða króna afgangur á vöruskiptum við útlönd nú í október sé mesti afgangur í einum mánuði síðan Hagstofa tók að birta mánaðarlegar tölur um vöruskipti árið 1989, en næstmestur var afgangurinn í september síðastliðnum.

Það er fyrst og fremst innflutningshlið vöruskipta sem skýrir þennan mikla afgang, en innflutningur í október var aðeins helmingur af því sem hann var fyrir ári síðan, reiknað á föstu gengi. Vöruútflutningur nam 47 mö.kr. en innflutningur 36,4 mö.kr. Ekki liggur fyrir nein sundurliðun á tölunum, en Hagstofan segir að merki séu um aukið verðmæti útfluttra sjávarafurða og iðnaðarvara en minni útflutning flugvéla og raunar flestra innfluttra vara miðað við mánuðinn á undan.
 
Hagstofan bendir sérstaklega á að í tölum þeirra sé miðað við afhendingu vara en ekki greiðslu, og er sú áminning væntanlega til komin vegna þess að gjaldeyristekjur vegna útflutnings hafa verið að skila sér seint og illa til landsins. Gjaldeyrismarkaður hefur því ekki notið góðs af útflutningstekjum umfram kostnað við innflutning, að því  er segir í Morgunkorni Glitnis.

„Líklegt má telja að útflytjendur haldi margir að sér höndum með að flytja gjaldeyristekjur sínar heim meðan óvissan í gengismálum er jafn mikil og nú er. Má ætla að tekjurnar taki að skila sér betur í heimahaga á næstu vikum í kjölfarið á birtingu aðgerðaáætlunar IMF og ríkisstjórnar og lánveitingu sjóðsins og annarra erlendra aðila."

Mun styðja við krónu

„Þessar tölur hljóta að teljast jákvæð tíðindi í flóði neikvæðra frétta sem yfir hagkerfið hafa flætt að undanförnu. Tölurnar eru til marks um hversu snar viðsnúningurinn er í ytra jafnvægi landsins, enda krónan afar veik og innlend eftirspurn að skreppa saman með miklum hraða. Lækkun á hrávöruverði á heimsmarkaði hjálpar svo enn frekar til að draga úr innflutningskostnaði, þótt á móti hafi álverð lækkað.

Áframhaldandi afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum sem við teljum að einkenni næstu misserin, ásamt verulega minna vægi þáttatekna á næstunni en undanfarin misseri, mun hjálpa til að koma styrkari fótum undir krónuna þegar um fer að hægjast og gjaldeyrisviðskipti verða aftur komin í nokkurn veginn eðlilegt horf," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK